Mars-geimskutla Musks sprakk í loft upp

Starship-geimskutla fyrirtækisins SpaceX, í eigu athafnamannsins Elons Musk, sprakk í loft upp í gær þegar hún reyndi að lenda aftur á jörðu niðri að loknu annars vel heppnuðu tilraunaflugi í Boca Chica í Texas í Bandaríkjunum.

Starship-geimskutlan sem fórst var 16 hæða há frumgerð geimflaugaflota SpaceX sem ætlað er að flytja menn og tugi tonna varnings til tunglsins og Mars, eins og segir í frétt Reuters.

Musk sagði sjálfur á Twitter í kjölfarið að „þrýstingur í aðaleldsneytistanki hafi verið of lágur“, sem gerði það að verkum að „hraði skutlunnar á leiðinni til jarðar var of mikill“. Geimskutlan fórst um leið og hún lenti á þar til gerðum lendingarpalli, hafandi svifið of hratt til jarðar. Musk sagði þó að tilraunin hefði gengið vel og að SpaceX hefði aflað verðmætra gagna sem nýta megi í tilraunum framtíðarinnar.

„Mars, hér komum við,“ sagði Musk svo á Twitter í nótt.

Myndband af atburðinum hefur farið víða um netheima.
Myndband af atburðinum hefur farið víða um netheima. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert