Aparnir elska alkóhól

Villtir simpansar kunna vel að meta sopann, samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var á hegðun þeirra í Gíneu í Vestur-Afríku. Þeir nota lauf til að ná í áfengan vökva í pálmatrjám.

Þetta þykir vísindamönnum varpa skýrara ljósi á þróun mannsins. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu Royal Society Open Science í gær.

Simpansarnir sem fylgst var með notuðu laufblöð eins og svamp til að sjúga upp áfengan vökva sem myndast í trjánum. Vökvinn er sterkur, 6,9% alkóhól, sem er meira magn en finnst í flestum bjórtegundum.

Bavíanar í Suður-Afríku eru þekktir fyrir að stela gerjuðum berjum af vínekrum, og ýmsir apar hafa orðið uppvísir að því að stela áfengum drykkjum af ferðamönnum.

Það sem þykir hins vegar merkilegt við simpansana er að maðurinn kemur hvergi nærri áfengisneyslu þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert