Gerði uppgötvun fyrir glötunina

Litaði ramminn er það svæði Perseifsvetrarbrautaþyrpingarinnar sem Hitomi náði að …
Litaði ramminn er það svæði Perseifsvetrarbrautaþyrpingarinnar sem Hitomi náði að kanna fyrir endalokin. NASA Goddard og NASA/CXC/SAO/E. Bulbul, et al.

Áður en japanski röntgengeimsjónaukinn Hitomi glataðist fyrr á þessu ári náði hann að gera eina uppgötvun. Athuganir hans sviptu hulunni af því hvernig ofurhitað gas í kringum risasvarthol í miðju vetrarbrautaþyrpingar hagar sér. Með því gaf hann smjörþefinn af því sem hefði getað orðið.

Hitomi glataðist í mars eftir röð mistaka sem leiddu til þess að hann rifnaði í sundur í geimnum. Sjónaukinn náði aðeins að gera rannsóknir í tvo og hálfan dag en það var þó nóg til þess að veita vísindamönnum nýja þekkingu á alheiminum.

Þúsundir vetrarbrauta eru í Perseifsvetrarbrautaþyrpingunni sem Hitomi beindi röntgenlitrófsgreini sínum að og japanskir og bandarískir vísindamenn höfðu unnið að því að þróa í áraraðir. Athuganirnar leiddu í ljós að gasið í kringum risasvartholið í vetrarbraut í miðju þyrpingarinnar er merkilega kyrrlátt.

Gasið er að meðaltali um 50 milljóna gráðu heitt og gefur frá sér röntgengeislun. Það kom vísindamönnum á óvart hversu lítil ókyrrð er í kringum þetta ofurheita gas.

Frétt mbl.is: Vísindalegur harmleikur

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA segir að gögnin frá Hitomi séu þrjátíu sinnum betri en fyrri athuganir á röntgenljósi af miðju Perseifsþyrpingarinnar. Með þeim geta vísindamenn borið kennsl á frumefni eins og járn, nikkel, króm og magnesíum sem sprengistjörnur hafa þeytt út í geiminn.

„Að geta mælt hreyfingar gass er meiri háttar framför í skilningi á hreyfingum í vetrarbrautaþyrpingum og tengslum þeirra við þróun alheimsins,“ segir Irina Zhuravleva við Kavli-öreindastjarneðlis- og heimsfræðistofnunina.

Hitomi-leiðangurinn átti að standa yfir í tvö ár en athuganir sjónaukans á Perseifsþyrpingunni verða því miður þær einu sem hann skilaði.

Frétt Spaceflight Now

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert