„Þú missir stjórn á öllu sem þú deilir“

Face­book hef­ur í fleiri ár veitt stærstu tæknifyr­ir­tækj­um heims aðgang …
Face­book hef­ur í fleiri ár veitt stærstu tæknifyr­ir­tækj­um heims aðgang að viðkvæm­um per­sónu­upp­lýs­ing­um not­enda sam­fé­lags­miðils­ins. AFP

„Það er ástæða til að vekja athygli á margítrekuðum alvarlegum brotum og lekum hjá Facebook,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Face­book hef­ur í fleiri ár veitt stærstu tæknifyr­ir­tækj­um heims aðgang að viðkvæm­um per­sónu­upp­lýs­ing­um not­enda sam­fé­lags­miðils­ins, þvert á það sem tals­menn Face­book hafa haldið fram.

Meðal þess sem kemur fram í skjölum sem New York Times hefur undir höndum vegna máls hafa Netflix og Spotify fengið aðgang að einka­skila­boðum not­enda og get­ur Amazon séð alla vini skráðra not­enda ásamt net­föng­um.

Helga segir að Persónuvernd hafi áður þurft að tjá sig um persónuverndarsjónarmið vegna Facebook. „Við gáfum út tilmæli á haustmánuðum þess efnis að grunnskólar, íþróttafélög og allir sem koma að starfi með ólögráða börnum á Íslandi noti ekki samfélagsmiðla. Um leið og þú notar samfélagsmiðil eins og Facebook þá missirðu stjórn á upplýsingunum,“ segir Helga.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir að skólar og aðrir hafi verið farnir að nýta samfélagsmiðla þar sem finna mátti alls konar upplýsingar um grunnskóla- eða leikskólabörn, jafnvel viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Fólk þurfi að hafa í huga að allt efni sem það setur inn á Facebook og aðra samfélagsmiðla er deilt með bandarísku stórfyrirtæki sem ítrekað hefur gerst sekt um alvarleg brot á persónuverndarlögum. 

„Þú missir stjórn á öllu sem þú deilir á Facebook. Þú ert að deila öllu með stórfyrirtæki í Bandaríkjunum,“ segir Helga og bendir á að Facebook hafi til að mynda fengið 500 þúsund punda sekt í sumar vegna Cambrig­de Ana­lytica-skan­dals­ins.

„Það er alveg ljóst að það er full ástæða til að hafa mikinn vara á öllu því sem fólk setur þarna inn. Sérstaklega fyrir Íslendinga vegna þess að níu af hverjum tíu fullorðnum á Íslandi virðist nota miðilinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert