Norðurheimskautið bráðnar hraðar en áður var ætlað

Mengun flýtir bráðnun íss.
Mengun flýtir bráðnun íss. AFP/Olivier Morin

Niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa til kynna að norðurheimskautið verði íslaust snemma á næsta áratug, eða um áratug fyrr en eldri spár gerðu ráð fyrir. Rannsóknin, sem birt var í Journal Nature Communications, gerir ráð fyrir því að september verði sem dæmi íslaus mánuður á norðurhveli innan skamms. Þótt dregið væri verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda í dag, þá myndi eftir sem áður enginn ís vera á norðurpólnum á sumrin upp úr 2050.

Íslaus sumur

Vísindamenn rýndu í gögn frá tímabilinu 1979 til 2019 og skoðuðu meðal annars myndir úr gervihnöttum. Þeir komust að því að bráðnun íss væri afleiðing hlýnunar jarðar af mannavöldum og að fyrri spár hefðu vanmetið hraða bráðnunar hafíssins.

Ísinn á norðurheimskauti bráðnar alla jafna á sumrin og í september er hann hvað minnstur áður enn hann safnast upp að nýju yfir veturinn. Verði sumrin íslaus með öllu, safnast hann líka hægar upp á veturna. Gangi þetta eftir og verði ekki gripið inn í má gera ráð fyrir að engan ís verði að finna á norðurheimskautinu allt frá ágúst fram í október þegar komið er fram á árið 2080.

Meiri öfgar í veðurfari

Ísleysið getur svo sett af stað ákveðna keðjuverkun um heim allan. Ísinn endurvarpar sólarljósi burtu frá jörðu, sem dökkur hafflötur gerir ekki með sama hætti. Sjórinn safnar því meiri varma, sem ýtir enn undir hlýnun á heimsvísu, og er þetta ferli kallað „heimskautamögnun“.

Á norðurslóðum getur þetta svo þýtt að meira öfga gæti í veðurfari, að hitabylgjur verði tíðari. Skógareldar og skæð flóð verða líka reglulegir viðburðir á norðlægari slóðum, og gætir þessara öfga fyrr en áætlað var, segir í frétt CNN.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert