Breyting á hafstraumum örari en spáð var

AFP

Hlýnun jarðar hefur valdið breytingu á djúpsjávarstraumum í kringum Suðurskautslandið. Nýleg rannsókn leiðir í ljós að þetta ferli gerist áratugum fyrr en áður var spáð og mun hafa afleiðingar á loftslag um heim allan.

Ástralskir og breskir vísindamenn sem standa að rannsókninni segja að ör bráðnun íshellunnar á Suðurskautslandinu hafi áhrif á samþættingu hafstrauma.

Bráðnunin orsakast öðru fremur af hækkandi hitastigi á jörðinni, sem aftur á rót sína í magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Hafstraumar flytja hvers kyns næringarefni, svo sem súrefni og kolefni.

Gangi þetta eftir hefur þetta ekki aðeins áhrif á lífríki sjávar heldur einnig á getu sjávar til þess að gleypa koltvíoxíð og til að tempra hita. Suðurskautslandið virkar eins og dælustöð fyrir hafstrauma jarðarinnar og því valda þessar niðurstöður miklum áhyggjum.

mbl.is