Strauss-Kahn segir AGS skuldbundinn til að aðstoða Íslendinga

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS.
Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS. Reuters

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), segir sjóðinn vera „skuldbundinn til þess að aðstoða Íslendinga.“ Að hans sögn er deila íslenskra stjórnvalda annars vegar og breskra og hollenskra stjórnvalda hins vegar um innstæðutryggingar „einkamál.“ Þetta kemur fram á fréttavef Bloomberg í dag.

Fjallað er um niðurstöður nýafstaðinnar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin hjá Bloomberg. Tekið er fram að sökum þess að íslensk, bresk og hollensk stjórnvöld hafi ekki getað komist að samkomulagi hafi það sett lán Íslands hjá AGS í uppnám þar sem Danir, Norðmenn, Svíar og Finnar hafi neitað að greiða Íslendingum þau lán sem þjóðirnar hafi lofað Íslandi þar til deilan við Breta og Hollendinga hafi verið leyst. 

„Ég er sannfærður um að Norðurlöndin muni standa við skuldbindingar sínar,“ lét Strauss-Kahn hafa eftir sér í dag. „AGS hefur frá upphafi lagt á áherslu á að lausnin á Icesave-deilunni sé einkamál og ekki sett lausn deilunnar sem skilyrði fyrir því að sjóðurinn gæti horft til framtíðar. Ég vona að íslensk stjórnvöld og þeir ráðamenn innan Evrópu sem að málinu koma geti fundið lausn á vandanum eins fljótt og auðið er. “

mbl.is