Úrslitin vantraust á ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mynd/norden.org

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Silfri Egils í Sjónvarpinu, að ríkisstjórnin yrði að horfast í augu við staðreyndir í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í gær. Ekki væri hægt að líta öðruvísi á úrslit atkvæðagreiðslunnar en vantraust á ríkisstjórnina í Icesave-málinu.

Bjarni vildi hins vegar ekki ganga það langt að krefjast þess að ríkisstjórnin segði af sér en sagði að leiðtogar stjórnarflokkanna yrðu að viðurkenna að mistök hefðu verið gerð í Icesave-samningagerðinni í fyrra. 

Þá sagði hann að forustumenn ríkisstjórnarinnar væru úr tengslum við þann  meirihluta kosningabærra manna, sem hefði í gær mætt á kjörstað og sagt nei við Icesave-lögunum og samningunum, sem ríkisstjórnin barðist fyrir á síðasta ári.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að Bjarni væri kjarkmikill að þora sem formaður Sjálfstæðisflokksins að hjóla svona í ríkisstjórnina sem tók við þrotabúi Sjálfstæðisflokksins. „Bíddu í  viku eða 10 daga og við skulum tala aftur saman þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar verður komin fram," sagði Steingrímur. 

Hann sagði að saga Icesave-málsins hefði ekki byrjað 1. febrúar 2009 heldur miklu fyrr þegar bankarnir voru einkavæddir. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hefðu í kjölfarið brugðist íslensku þjóðinni og óábyrgir bankamenn farið um heiminn í nafni Íslands og gert skelfilega hluti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina