Ingibjörg Guðmundsdóttir var fædd á Hæli í Flókadal í Borgarfirði 5. desember 1916. Hún lézt 5. ágúst 2014. Foreldrar hennar voru Guðmundur Bjarnason, f. 1886, d. 1978 og Helga Jakobsdóttir, f. 1885, d. 1928, búendur á Hæli. Alsystkini hennar voru: Jakob, f. 1913, d. 2005, bóndi á Hæli, og Herdís, húsfreyja á Þverfelli í Lundarreykjadal, f. 1918, d. 2007. Dóttir Guðmundar með seinni konu sinni, Stefaníu Arnórsdóttur, er Margrét, leikkona í Reykjavík, fædd 1933. Ingibjörg giftist frænda sínum Ingimundi Ásgeirssyni frá Reykjum í Lundarreykjadal, 11. desember 1942. Ingimundur var fæddur 13. apríl 1912 en lézt 11. september 1985. Börn þeirra eru: 1) Björk, skjalavörður í Reykjavík, fædd 15. ágúst 1943. 2) Ásgeir, húsasmiður í Ytri-Njarðvík, fæddur 24. júní 1945, kvæntur Sigríði Guðbergsdóttur. Börn þeirra eru: a) Bergdís Ásta, b) Ingimundur, c) Ása, sambýlismaður hennar er Bjarki Kristinsson, börn: Sindri Geir Heiðarsson og Sara og Aron Bjarkabörn. 3) Ingunn, móttökuritari í Reykjavík, fædd 21. maí 1948, gift Stefáni Bergmann Matthíassyni. Synir þeirra eru: a) Ingimundur, var kvæntur Sif Gylfadóttur, börn þeirra eru: Stefán Bergmann, Ingunn Júlía og Gylfi Snær. b) Bjarki, kvæntur Þórdísi Ævarsdóttur, synir þeirra eru: Snorri, Dagur og Óðinn. 4) Helga, ritari í Reykjavík, fædd 7. apríl 1952, var gift Þorvarði Inga Þorbjörnssyni. Börn þeirra eru: Þórdís og Andri. Ingibjörg og Ingimundur hófu búskap á Hæli vorið 1943 í sambýli við Jakob, bróður hennar, sem var ókvæntur. Eftir lát Ingimundar, haustið 1985, héldu þau Ingibjörg og Jakob áfram búskap til haustsins 1991, þegar jörð og bú voru seld. Ingibjörg fluttist þá í íbúð í Fannborg 8 í Kópavogi og bjó þar þangað til í ágúst 2012, en þá hafði líkamlegur styrkur hennar minnkað talsvert. Minni hélt hún til æviloka. Tvö síðustu æviárin dvaldi Ingibjörg á Hrafnistu í Boðaþingi 5-7 í Kópavogi.. Útför Ingibjargar fer fram frá Reykholtskirkju í dag, 23. ágúst 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Fátt hefur mótað mig jafn mikið og að hafa dvalið í sveit á sumrin hjá Ingu ömmu og Jakobi bróður hennar. Að finna að manni er treyst fullkomlega fyrir alls kyns áskorunum sem krefjast innsæis og útsjónarsemi. Að finna að litið sé á mann sem sjálfstætt hugsandi manneskju sem getur fundið út úr flóknum viðfangsefnum, jafnvel þó aðrir segi að maður sé bara tíu ára barn.
Gætirðu náð í hestana út í haga? Já, auðvitað! Flott, náðu þér í beisli út í skúr og við sjáumst á eftir. Ha, bíddu þarf maður ekki hnakk? Nei, nei, þú finnur út úr þessu.
Það var ekki laust við fiðring í fyrstu skiptin þegar maður beislaði spakasta hestinn, teymdi hann að næstu þúfu og klöngraðist á bak. Svo þegar stóðið stökk af stað virtist útilokað annað en maður flygi af baki. Oftast slapp það nú samt, en í hvert skipti sem hestinum datt í hug að taka skarpa beygju, greip maður fastar um faxið og spurði sig hvaða rugl þetta væri eiginlega! En þar sem fullorðna fólkið var sannfært um að maður myndi rúlla þessu upp, þá skilaði maður sér auðvitað alltaf heim. Ekki bara óbeygður og óbrotinn, heldur með bætt og betra sjálfstraust eftir að hafa sigrast á óttanum og nýrri áskorun.
Slíkt traust, frelsi og tækifæri til þroska er vandfundið fyrir börn í nútímasamfélagi og ég hugsa með einlægu þakklæti; takk, amma og takk, Jakob.
Mér leið alltaf vel í kringum ömmu. Við ræddum saman um alls kyns hluti og aldrei talaði hún við mig öðruvísi en af virðingu. Ég skynjaði alltaf mjög mikla umhyggju frá henni. Samt man ég aldrei eftir að við höfum talað um neinar tilfinningar, annað en kannski að spurt var hvernig hefurðu það? og svarið var yfirleitt hjá okkur báðum; bara gott eða í mesta lagi að ég sagði; pínu svangur, og þá var að sjálfsögðu farið beinustu leið niður í eldhús og eitthvað góðgæti fundið til.
Amma óx auðvitað upp í umhverfi og á tímum þar sem tilfinningar voru lítið ræddar, nema þá sem eitthvað vandamál til að sigrast á. Það var helst að tilfinningar eins og von og ástríða væru óbeint ræddar þegar landsliðið í handbolta var að keppa. Þá gat hún setið límd við sjónvarpið. Þarna voru hetjurnar hennar mættar. Menn sem eltu sína drauma, menn sem börðust af harðfylgi fyrir sig og sína þjóð.
Því miður talaði hún lítið við mig um sýna eigin drauma - sennilega höfðu þeir dofnað með endalausum þvottum og þeytingi upp og niður bratta stigana á Hæli. Á tímabili kringum fjörutíu og fimm ára aldurinn reyndist lífið henni nánast um megn og hugurinn lagði á flótta frá hinum hefðum bundna raunveruleika. Sú flóttatilraun og aðferðir þess tíma við að draga fólk að landi áttu eftir að fylgja henni sem skuggi. En aldrei skynjaði ég þann skugga með beinum hætti sem krakki, þó ég átti mig á því nú þegar ég lít til baka að skilin milli ímyndana og raunveruleika hafi e.t.v. ekki verið alveg skýr á stundum.
Þessi skuggi skyggði líka á alls kyns möguleika. Og stórar breytingar eins og að hætta búskap virtust óyfirstíganlegar. Einnig var spennandi og skemmtilegum upplifunum eins og ferðalögum, skorður settar af þessum skugga, og ferðaðist hún sem dæmi aldrei út fyrir landsteinana.
Einn var þó sá skuggi sem hún hafði ánægju af og var það hundurinn á bænum þegar ég var þar í sveit, sem hét Skuggi. Enda var amma mikill dýravinur og talaði alltaf vel um dýrin. Og mér fannst sem hún finndi oft til með þeim, sérstaklega þegar kom að því að senda lömbin í Borgarnes - þá leið henni ekki vel.
En amma var alltaf tilbúin til að aðstoða mann eins og hún mögulega gat, þó hennar líf hafi ekki verðið neinn dans á rósum. Stundum leið mér eins og hún væri að finna gömlum og veðruðum draumum sínum farveg í gegnum mig og önnur barnabörn. Því auðvitað átti hún sér drauma - og það er eins og oft vill verða að við andlát fer fólk að segja sögur og minnast á æsku þess látna. Og þá heyrir maður af ýmsum ánægjustundum m.a. ferðalögum, dansi og söng - nú og draumum eins og um hjúkrunarnám o.fl.
Mikið vildi ég að ég hefði rætt við þig, elsku amma, um það hvernig líf þitt mótaðist á árunum kringum seinna stríð þegar þú varst að taka ákvarðanir um það hvaða stefnu þú ættir að taka í lífinu.
En ég get ekki ímyndað mér að það hafi verið auðvelt að vera stúlka með stóra drauma á þessum árum. Árum þegar iðnbylting og heimsstyrjöld öskruðu að lífið snerist bara um að vinna hraðar og lifa af. Árum þegar örvæntingarfullt feðraveldi samfélagsins beitti samviskubitinu á stúlkur svo þær væru nú þægar og ynnu sín hefðbundnu störf. Árum þegar bókbundnustu þjóðkirkjunnar þjónar riðu um héruð með skömmina að vopni og boðuðu að þjáning væri dyggð.
Nú er hins vegar tíminn kominn hjá þér, elsku amma, þar sem fjötrar hugans eru fuðraðir upp. Tíminn þar sem gulli slegnar styttur af froðufellandi feðrum eru fallnar niður úr skýjunum. Tíminn þar sem stúlkan með stóru draumana getur sagt skilið við hefðir og hömlur samfélagsins.
Í þetta sinn er það ekki flótti - í þetta sinn eru engin raflost - í þetta sinn ertu frjáls eins og fuglarnir í Flókadalnum. Fuglarnir sem við fylgdumst svo oft með saman og spáðum í hvað þeir hétu og hvernig þeim liði.
Valkostirnir voru víst alltaf bara tveir, að vera upptekin að deyja fyrir dyggðina eða að lifa í von og ástríðu - hér og nú. Þarna höfðu fuglarnir forskot á okkur bæði - það var enginn sem gat talið þeim trú um neitt annað en að lifa, dansa og syngja út frá því sem er að gerast hér og nú.
Með opnum huga um allt sem er, óska ég þess af öllum mætti að lífs-orka þín og -andi leiki nú við hvern sinn fingur og skrifi í skýin:
Engar fjósaferðir á morgun - farin í ferðalag - út fyrir landsteinana!

Ingimundur Ásgeirsson.