Ingibjörg Jónsdóttir fæddist 17. október 1935 í Nýjabæ á Seltjarnarnesi. Hún andaðist á hjúkrunar- og dvalarheimili Brákarhlíð í Borgarnesi 17. maí 2015.
Hún var þriðja dóttir hjónanna í Nýjabæ, þeirra Jóns Guðmundssonar, bónda og endurskoðanda, f. 14.3. 1899 á Hvoli í Mýrdal, d. 27.7. 1964, og Bryndísar Ólafíu Guðmundsdóttur, húsmóður, f. 20.6. 1900 í Nýjabæ á Seltjarnarnesi, d. 23.9. 1966. Systur Ingibjargar voru: 1) Ragnhildur, f. 5.4. 1929, d. 28.7. 1985, maki Sigtryggur Hallgrímsson, d. 24.9. 1994. 2) Guðrún, f. 21.10. 1932, d. 1.3. 2011, maki Snæbjörn Ásgeirsson, d. 9.12. 2012. 3) Elín Jónsdóttir, f. 24.7. 1937, d. 31.7. 2011, maki Almar Gestsson. 4) Guðmunda, f. 7.8. 1939, d. 2.3. 1940.
Hinn 19. september 1959 giftist Ingibjörg eftirlifandi eiginmanni sínum, Einari Ólafssyni, forstjóri, f. 27.12. 1935. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson, símamaður, f. 24.3. 1903, d. 10.5. 1983, og Halldóra Steinunn Bjarnadóttir, húsmóðir, f. 8.10. 1905, d. 11.7. 1996. Ingibjörg og Einar eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1. Jón, flugstjóri, f. 13.7. 1961, kvæntur Sigrúnu Sigurðardóttir, f. 20.6. 1962. Börn þeirra eru a) Íris, f. 15.5. 1984. Unnusti hennar er Ragnar Þór Hilmarsson. Íris á eina dóttur, Snædísi Sigrúnu Heiðarsdóttur, f. 6.4. 2006, b) Björn, f. 24.4. 1991 og c) Sigurð Einar, f. 6.11. 1993. Unnusta hans er Rakel Pétursdóttir. 2. Halldóra, fjármálastjóri, f. 5.4. 1964. Unnusti hennar er Grétar Már Ómarsson. Halldóra var gift Víkingi Jóhannssyni, þau skildu. Börn þeirra eru a) Róbert Vikar, f. 9.10. 2000, og b) Inga Dís, f. 9.10. 2000. 3) Ólafur, framkvæmdastjóri, f. 23.4. 1969, kvæntur Julie Gaudette Ólafsson, f. 27.2. 1969. Börn þeirra eru a) Ella Paige, f. 29.12. 2004, og b) Bryndis Olivia, f. 29.12. 2006. 4) Bryndís Elín, f. 1.12. 1971, d. 26.12. 1988. Ingibjörg aðstoðaði foreldra sína við uppeldið á Guðmundi Jóni Helgasyni, systursyni sínum, á meðan hún dvaldi í föðurhúsum og hefur hann æ síðan verið hluti af fjölskyldunni.
Ingibjörg útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og sem lyfjafræðingur frá Lyfjafræðingaskóla Íslands 1958. Hún starfaði í Reykjavíkurapóteki 1958-61 og síðan í afleysingum til 1964.
Ingibjörg og Einar bjuggu fyrstu árin í Nýjabæ á Seltjarnarnesi, fluttust svo til Lúxemborgar 1965, til Bandaríkjanna 1983, þar sem dóttir þeirra, Bryndís Elín, lést í bílslysi. Ingibjörg og Einar fluttu aftur til Íslands 1997 og hafa búið á Söðulsholti, Snæfellsnesi síðustu árin. Ingibjörg dvaldi síðustu rúm tvö árin á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi, en hún hafði fengið heilablóðfall 1996 og aftur 1997.
Útför Ingibjargar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 29. maí 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag verður móðursystir mín, Ingibjörg Jónsdóttir, jarðsett frá Fossvogskirkju og síðar lögð til hvíldar við hlið dóttur sinnar, Bryndísar Elínar, í Fossvogskirkjugarði. Ingibjörg, eða Inga, var fædd 17.10. 1935 og var ein af fjórum systrum sem upp komust frá Nýjabæ á Seltjarnarnesi. Elst var Ragnhildur Jónsdóttir, fædd 5.4.1929, en hún lést 28.7. 1985, Guðrún Jónsdóttir, móðir mín, fædd 21.10. 1932, lést 1.3.2011, og svo Elín Jónsdóttir, fædd 24.7. 1937 og lést 31.7. 2011. Yngst var Guðmunda Jónsdóttir, fædd 7.8. 1939 , lést 2.3. 1940.
Ingibörg eða Inga, eins og hún var ávallt kölluð, giftist Einari Ólafssyni árið 1959 og áttu þau fjögur börn; Jón, giftur Sigrúnu Sigurðardóttur, Halldóra Einarsdóttir, Ólafur giftur Julie Gaudette og yngst var Bryndís Elín sem lést 26.12. 1988.  Barnabörnin eru sjö þau; Íris, Björn, Sigurður Einar,  Inga Dís, Róbert Vikar, Ella Paige, og Bryndis Olivia. Barnabarnabarnið er Snædís Sigrún.  Inga og Einar áttu fallegt heimili fyrst á Íslandi og síðan í Lúxemborg og loks í Connecticut í Ameríku. Hvar sem heimili þeirra var í veröldinni var það alltaf opið fjölskyldumeðlimum og voru það margir sem nutu gestrisni þeirra hjóna. Ég var ein af frændsystkinunum sem átti því láni að fagna að fá að vera hjá Ingu og Einari í Lúxemborg í nokkra mánuði á ári í nær 6 ár.
Inga var menntuð sem lyfjafræðingur og eru mínar fyrstu minningar af henni frá gamla Reykjavíkurapótekinu í Austurstræti. Eftir að hún flutti til Lúxemborgar þá vann hún ekki utan heimilisins. Einar var oft í burtu vegna starfs síns og þurfti Inga því að sjá um börn og bú. Þegar þau fluttu í raðhús með garði þá tók hún að sér að sjá um garðinn og skipulagði hann að mörgu leiti í íslenskum stíl þó auðvitað væru möguleikar á að rækta marga aðra hluti en hún hafði vanist í garði mömmu sinnar í Nýjabæ. Vinkonurnar voru flestar íslenskar giftar mönnum sem unnu í tengslum við flugfélagið Cargolux. Ég man vel eina þeirra, Vaddí, gift Sigurði Jónssyni flugvirkja, en það var ávallt glatt á hjalla þegar gesti bar að garði, hvort sem það var hann Örlygur Sigurðsson frændi okkar, nánasta fjölskylda eða vinafólk.
Þegar ég hugsa til Ingu frænku þá kemur í huga mér sjálfstæð kona sem fór sínar leiðir innan þess ramma sem hún setti sér. Fjölskyldan var henni mikilvæg og lagði hún mikið upp úr fallegu heimili og góðum mat enda frábær kokkur en það átti hún ekki langt að sækja. Inga átti sínar stundir þar sem hún glímdi við krossgátur og púsluspil og svo var það kaffibollinn og sígarettan um miðjan morguninn og alltaf einn campari-drykkur fyrir kvöldmat. Þegar Inga og Einar fluttu til Connecticut breyttist líf hennar mikið. Börnin voru orðin eldri og þau elstu farin að heiman. Það var meira félagslíf í kringum hana og hún fór meðal annars að spila tennis af kappi. Ég hafði það á tilfinningunni að hún nyti lífsins og þó ég færi ekki lengur til þeirra til að vera hjá þeim í lengri tíma þá fann ég að það var ákveðin léttleiki yfir lífi hennar í Ameríku. Það var því mikið áfall er Bryndís Elín yngsta dóttirin dó af slysförum.  Þó Inga bæri ekki sorgina utan á sér vissi ég að missirinn var mikill. Nokkrum árum seinna er þau hjónin voru í fríi í húsinu sínu á Flórída þá fékk Inga fyrsta heilablóðfallið. Hún náði sér nokkuð vel eftir það en því miður þá gekk annað yfir sem tók í burtu möguleika hennar til að tjá sig svo skiljanlegt væri. Á þessum tíma höfðu Inga og Einar flutt til Íslands m.a. til að athuga hvort auðveldara væri fyrir Ingu að ná tengingu í gegnum móðurmálið. Það gekk því miður ekki eins vel og vonast var eftir og náði hún ekki að segja sínar skoðanir eða leggja til málanna eins og áður hafði verið. Það er augljóst að það var mikið á hana lagt en ég get ekki varist að hugsa um hvað við fórum mikils á mis við því þarna var þrátt fyrir allt einstaklega vel gefin kona sem hafði svo margt gott að segja. Það var þó ljóst að Inga fylgdist með og vildi gjarnan segja manni fréttir af börnum og barnabörnum. Hún var ávallt umlukin myndum af fjölskyldunni og þegar minnst var á barnabörn og barnabarnabarn þá ljómuðu augun. Fljótlega eftir komuna til Íslands fluttu Inga og Einar á Söðulsholt á Snæfellsnesi. Þó Inga gæti ekki lengur rekið bú eins og áður var þá tók hún á sinn sérstaka hátt virkan þátt í því sem Einar tók sér fyrir hendur. Hún naut athafnasamarinnar sem alltaf hefur verið í kringum Einar og þegar maður spurði um hestamennskuna hló hún þessum sérstaka hlátri sem bjó yfir svo mikilli væntumþykju og stolti.  Það var aðdáunarvert að sjá hversu vel Einar hugsaði um Ingu og hversu ákveðin hann var í að gefa henni reisn í lífinu með því að hafa hana eins lengi og hægt var innan veggja heimilisins. Síðustu árin átti Inga hinsvegar í góðu yfirlæti á Hjúkrunarheimilinu í Borgarnesi. Þar naut hún umhyggju starfsfólks og fjölskylda og ættingjar sóttu hana gjarnan heim. Síðastliðin jól naut hún svo í faðmi fjölskyldu á Söðulsholti og frá myndum sem Halldóra sendi má sjá þá miklu gleði sem það veitti henni.  Ég hitti síðast Ingu þegar ég var á Íslandi í byrjun þessa árs. Fregnir höfðu borist að hún væri ekki hress og að mestu rúmliggjandi. Þrátt fyrir það þá var ljóst af handartaki og augnráði að hún var fullmeðvituð um hver var í heimsókn. Hún tók í höndina á mér og strauk um giftingarhringinn hennar mömmu sem ég hef borið síðan hún lést fyrir fjórum árum.  Ég var ekki viss hvort hún væri að segja mér að ég líktist mömmu eða kannski var hún að segja að tími væri komin fyrir hana til að hitta mömmu aftur. Það eru skrítnar tilfinningar þegar komið er að lokum hjá þeim sem manni þykir mikið vænt um, þegar maður veit að það er þörf á hvíld en langar samt ekki að sleppa, því þegar stundin kemur þá er hún svo óafturkallanleg. Á þessum tíma eru minningarnar mikilvægar og þar er ég svo heppin að hafa fengið að kynnast svo stórbrotinni konu. Það er mikill söknuður en líka þakklæti ekki bara fyrir allt það sem Inga gerði heldur líka fyrir þá manneskju sem hún hafði að geyma og var um fram allt fram á síðustu stund.

Bryndís H. Snæbjörnsdóttir.