Haraldur Páll Bjarkason fæddist á Ólafsfirði 18. júlí 1968. Hann lést á heimili sínu 26. janúar 2016.

Foreldrar hans eru Bjarki Sigurðsson, fæddur 6. maí 1944, og Elín H. Haraldsdóttir, fædd 26. mars 1950.

Systkini hans eru: a) Stefán Kemp, fæddur 12. nóvember 1963, maki Gunnlaug Hartmannsdóttir, eiga þau þrjár dætur og eitt barnabarn. b) Ragna Rós, fædd 17. nóvember 1971, maki Gunnar Valsson, eiga þau fimm börn og eitt barnabarn. c) Jón William, fæddur 9. desember 1979, maki Guðríður Eva Þórarinsdóttir.

Eiginkona Haraldar Páls er Guðrún Elín Hilmarsdóttir, fædd 10. febrúar 1970, foreldrar hennar eru Hilmar Hilmarsson og Kristbjörg Óladóttir. Systkini Guðrúnar eru Karen og Hilmar, maki hans Jóna Kristín Jónsdóttir og eiga þau tvo syni.

Börn Haraldar og Guðrúnar eru Hulda Björk fædd, 1. október 1993, og Hlynur Óli, fæddur 28. mars 1998. Sonur Huldu Bjarkar er Baldur Ingi Magnússon, fæddur 8. október 2013.

Haraldur ólst upp á Ólafsfirði til ársins 1985 en þá flutti hann með foreldrum sínum til Sauðárkróks. Það sama ár kynnist hann eiginkonu sinni og hófu þau sambúð þar. Haraldur vann þar lengst af hjá Steypustöð Skagafjarðar auk þess sem hann vann við tamningar. Árið 1995 hófu þau búskap ásamt hrossarækt í Sólheimum í Blönduhlíð, sem þau stunduðu til ársins 2003 er þau fluttu til Reykjavíkur. Haraldur hóf þá sjálfstæðan rekstur sendibifreiðar í nánu samstarfi við tengdaföður sinn. Árið 2011 fluttist fjölskyldan á Selfoss og hóf Haraldur þá störf við sölu véla og tækja hjá Jötni vélum. Alla tíð stundaði Haraldur hestamennsku og hrossarækt og var virkur í félagsstörfum hestamanna.

Útför Haraldar Páls fer fram frá Selfosskirkju í dag, 5. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku brósi minn,

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér
skrítið stundum hvernig lífið er,
eftir sitja margar minningar
Þakklæti og trú.

Þegar einhvað virðist þjaka mig
þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,
þá er eins og losni úr læðingi
lausnir öllu við.

Þó ég fái ekki að snerta þig
veit ég samt að þú ert hér,
og ég veit að þú munt elska mig
geyma mig og gæta hjá þér.

Og þó ég fengi ekki að þekkja þig
þú virðist alltaf getað huggað mig,
það er eins og þú sért hér hjá mér
og leiðir mig um veg.

Þó ég fái ekki að snerta þig
veit ég samt að þú ert hér,
og ég veit að þú munt elska mig
geyma mig og gæta hjá þér.

Og þegar tími minn á jörðu hér,
liðinn er þá er ég burtu fer,
þá ég veit að þú munt visa veg
og taka á móti mér

Þú munt taka á móti mér brósi þegar minn tími kemur, passa mig og vísa mér veginn eins og þegar við vorum lítil. Við höfum gengið í gegnum ýmislegt saman. Ég hugsa til tímans þegar við vorum að alast upp í Ólafsfirði, þegar við vorum alltaf á skíðum alla daga, á sumrin að veiða í ósnum eða í vörubílunum með pabba og frændum okkar. Það var allt svo spennandi og gaman. Svo fórst þú að fara í sveitina á sumrin, þá beið ég eftir að réttirnar kæmu því þá fórum við að ná í þig. Stundum áttum við erfitt en alltaf passaðir þú mig, hugsaðir um mig að mér liði ekki illa. Þetta þjappaði okkur saman og oft finnst mér við hafa talað saman í þögninni þegar við urðum eldri. Þú varst mjög mikill prakkari, vinamargur og mikill húmoristi. Áttir til að snúa öllu upp í grín og þá mest af sjálfum þér sem er mikill kostur því maður gerir ekki grín að öðrum, nema að systur sinni, það má, því eins og ég sagði oft þú átt bestu systur í heimi enda áttu bara eina. Manstu þegar þú og Þórður frændi voruð að passa mig á Ólafsveginum, ég fór eitthvað í pirrurnar á ykkur, mjög undarlegt, mamma og pabbi voru nýbúin að kaupa frystikistu svo hún var tóm í forstofunni. Þið hentuð mér ofan í af því að ég var svo leiðinleg en hugsuðuð samt um að það færi ekki illa um mig, ég fékk ullarteppi, þið settuð bækur á milli þannig að ég fengi ljós svo sátuð þið ofan á kistunni og átuð ís með mig organdi en mér leiddist ekkert þegar mamma og pabbi komu óvænt heim og gómuðu ykkur. Ég kveikti í skíðunum þínum þannig að við vorum kvitt. Svo fengum við hestana, það var þitt líf og yndi, við vorum öll saman í þessu það var yndislegt. Besti tíminn minn var þegar þú og Stebbi bróðir leigðuð hesthús hér uppi í Mosó. Jón bróðir var í verknámi hér fyrir sunnan, við vorum öll saman í sama hverfinu, það er minn besti tími. Þú komst svo oft við hjá okkur Gunna, tékkaðir á því hvað systir þín væri að elda í kvöldmatinn. Komst í kaffi í hesthúsið og við til ykkar. Eftir að ég flutti suður þá urðum við nánari öll, vorum á tímabili mjög dugleg að hittast og borða saman. Þú og Gunni minn náðuð vel saman og gátuð náttúrulega endalaust talað um hesta fram og tilbaka. Þegar ég gifti mig þá komstu til mín stuttu seinna og tókst utan um mig og sagðir mér hvað þér fannst ég falleg þegar ég gekk inn kirkjugólfið, að þú hafir tárast, allt hafi verið svo fallegt og hátíðlegt. Ofsalega finnst mér vænt um þessi orð. Ég er stolt af þér, elsku brósi minn, segi hundrað sinnum á dag Halli bróðir ég vil ekki hafa þig minningu ég vil að þú sért hjá okkur. Heldur vil ég ekki segja að þú sért komin á betri stað, þú varst á besta stað í heimi, hjá konunni þinni og börnum, afa drengnum þínum sem þú sást ekki sólina fyrir.

Þú varst svo ofsalega ánægður í vinnunni hjá Jötunvélum. Selja búvélar, það var algjörlega þitt, enda draumur þinn alltaf að verða bóndi. Ekki hægt að vera á betri stað. Samband okkar minnkaði eftir að þið fluttuð á Selfoss, það var aldrei meiningin hjá mér og örugglega ekki hjá þér, við lifum orðið svo hratt og allt planað svo fram í tímann að maður hefur þannig lagað aldrei orðið lausa stund fyrir sína nánustu. Nú held ég að það sé kominn tími til að stoppa og líta í kringum sig og sjá það sem skiptir mann máli í lífinu og virða það sem maður hefur og á. Ég fékk að merkja líksængina þína og var það mér svo mikill heiður að fá að gera þetta fyrir þig en jafnframt það erfiðasta sem ég hef gert. Hún verður breidd yfir þig brósi minn og heldur þér hlýju á nýja staðnum. Þú ert örugglega kominn til Rósu ömmu, Sigga afa, Halla afa og Baldurs frænda, þið hugsið um hvort annað. Þegar ég sit hér og skrifa þessi orð til þín er vika síðan að þú fórst, ein vika, svo verður einn mánuður, svo eitt ár. Allt er svo erfitt fyrst. Fyrsta landsmótið, ég hef aldrei farið á landsmót og þú ekki þar, Laufskálarétt þú ekki þar, æi brósi minn. Ég gæti sagt svo miklu meira en við höldum áfram að tala saman í þögninni, veit að þú verður með mér í framtíðinni og fylgist með okkur í hrossaræktinni. Ég þakka fyrir að hafa fengið að vera þér samferða í mín 44 ár. Þangað til að við hittumst síðar, elsku hjartans bróðir minn.

Elsku Gunna mása mín, Hulda Björk, Hlynur Óli og Baldur Ingi megi Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg, ég er svo stolt að eiga ykkur.

Þín systir,

Ragna Rós, Gunnar og fjölskylda.