Hallmar Sigurðsson fæddist á Húsavík 21. maí 1952. Hann lést 30. janúar 2016.

Hallmar var sonur hjónanna Sigurðar Hallmarssonar skólastjóra, f. 1929, d. 2014, og Herdísar Birgisdóttur húsmóður, f. 1926, d. 2014. Hallmar átti tvær yngri systur, þær Katrínu, f. 1957, og Aðalbjörgu, f. 1964.

Eftirlifandi eiginkona Hallmars er Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt, f. 1953. Eiga þau eina dóttur, Herdísi Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmann, f. 1972, gift Magnúsi Orra Schram, f. 1972, sagnfræðingi og MBA í viðskiptum. Hallmar lætur eftir sig tvö barnabörn, þau Sigríði Maríu laganema, f. 1993, og Hallmar Orra, f. 1999.

Hallmar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1972, BA-prófi í leikhús- og listfræðum frá Stokkhólmsháskóla árið 1976, leikstjórnarnámi frá Dramatiska Institutet (DI) í Stokkhólmi 1978 og MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst 2008. Að loknu námi á áttunda áratugnum starfaði Hallmar sem leikari, leikstjóri, við leikritun og sem kennari í leiklist í Svíþjóð og á Englandi. Var hann leikstjóri hjá Sænska ríkisleikhúsinu í Örebro, við leikhúsið í Harnesönd og starfaði sem sérfræðingur við leiklistardeild BBC í London. Hallmar var lengi leikstjóri hjá Útvarpsleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Húsavíkur og við Listaháskóla Íslands. Hann var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1987 til 1991. Hallmar varð síðar fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið. Þá leikstýrði hann nokkrum uppfærslum við Þjóðleikhúsið í Ljubljana í Slóveníu. Hann var verkefnisstjóri leiklistar við Ríkisútvarpið um sjö ára skeið og umsjónarkennari í Prisma – samstarfsverkefni LHÍ og Háskólans á Bifröst. Þá kom hann að fjölda verkefna í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum sem leikari, leikstjóri, leikmyndahönnuður, þýðandi og höfundur efnis.

Hallmar vann alla tíð mikið að félagsmálum. Hann var m.a. fulltrúi nemenda í stjórn Dramatiska Institutet, fulltrúi DI í Nordiskt scenskoleråd og í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi. Þá var hann í skólanefnd Leiklistarskóla Íslands, í stjórn Sænsk-íslenska félagsins, í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík, í stjórn Leiklistarsambands Íslands og í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi. Síðustu árin var Hallmar framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands, starfaði sjálfstætt við menningarráðgjöf og vann að listmálun og skrifum.

Hallmar verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 9. febrúar 2016, klukkan 13.

Stundum, á námsárunum í Stokkhólmi, fannst mér að Hallmar liti svo á að sérhvert atvik eða viðburður gæti átt heima á leiksviði. Þegar ég íhugaði sviðsetningar klassískra leikverka og lét eftir mér að lifa og hrærast á því innra sviði sem ég kom mér upp hverju sinni, fannst mér Hallmar einmitt sviðsetja veruleikann, hversdagslífið, frá upphafi til enda eða frá morgni til kvölds. Margt sem bar á góma eða við ræddum í tengslum við daglegt líf eða pólitík stundarinnar, varð honum að yrkisefni. Allt breyttist í teater. Leikræn tilþrif í frásögnum og atferli fóru hátt. Skrambans asni sem maður var að halda ekki dagbók eða skrifa hjá sér þær teatrölsku æfingar sem Hallmar leiddi okkur báða í gegnum, til dæmis í lestinni á leiðinni heim eða á löngum skrafkvöldum. Ég var á þessum árum sokkinn í ævintýraheim leikbókmennta; dramatúrgían fannst mér vera sem bókmenntalegt handverk sem leikstjórarnir hlytu að byggja sína greiningu á. Hvað væri sviðsetning án dramatúrgs? Ég góndi upp á fræga kennara okkar og beið þess að heyra frá þeim hinn endanlega sannleik um teater. Hallmar var rótfastur í ævintýraheimi leikhússins og fannst að daglegt líf ætti heima þar. Hann þurfti ekki svo mjög á frægu fyrirlesurunum að halda. Halli var fimm árum yngri en ég en um margt betur að sér og lengra kominn í fræðunum. Hann lauk leikstjórnarnáminu á Dramatiska Institutet vorið 1978 og fór þá strax að starfa við leikstjórn og kennslu í Stokkhólmi eða þar í grennd. Reyndar kom hann sér undan því, fljótlega, að stunda vinnu fjarri heimilinu því að hann mátti ekki af Siggu og Herdísi sjá. Leikstjórn og leikur var Hallmari hinn sjálfsagði vettvangur enda alinn upp á leikaraheimili. Leikhúsið var honum hið sjálfsagða tæki til að skilja heiminn.

Dramatiska Institutet í Stokkhólmi var á okkar tíð þekktur skóli í leikhúsi, kvikmyndalist og útvarpi og þótti eftirsóknarvert að komast þar inn. Nám hvers og eins var mjög lagað að nemandanum sjálfum, reynt að greina hvað kæmi hverjum og einum best. Aðeins átta nemendur voru teknir inn í leikhúsnámið hvert vor, valdir úr miklum fjölda umsækjenda. Hallmar var í náminu, eins og í störfum sínum síðar, sá sem alltaf leitaði sameiginlegrar niðurstöðu; leikstjórnin kom innan úr verkinu og vinnunni en ekki ofan að eða úr einhverri fyrir fram gefinni niðurstöðu leikstjórans eða aðfenginni hugmyndafræði. Ég spurði stundum leikara sem unnu að sýningum með honum hvernig þeir kynnu við leikstjórann sinn. Margir sögðu að hjálp hans við að finna kjarnann í hlutverkinu væri í senn markviss og blíðleg. Hann var svo ljúfur maður, úthaldsgóður, gaf sig allan í það verkefni sem barst honum í hendur. Hann rann saman við umhverfið, tileinkaði sér hugarfar sviðslistamannanna, skildi forsendur allra, talaði sænsku með ýmiss konar blæbrigðum eftir því með hverjum hann hafði unnið þann mánuðinn. Það var hans aðferð til að skilja betur. Maður þarf að vita allt, sagði hann stundum. Leikhúsið var honum hinn sjálfsagði vettvangur í byrjun, en leit hans að lífsfyllingu náði langt út fyrir það sem kallast teater. Halli var lífsnautnamaður í bestu merkingu þess orðs, elskur að náttúru Íslands, hestamaður, hundamaður, veiðimaður; partur af honum var bóndi en fyrst og fremst var hann fjölskyldumaður. Þegar við hittumst undir það síðasta talaði hann mest um barnabörnin sín. Hann var húmoristi fram í fingurgóma og naut þess að vera í góðum félagsskap og skipti engu af hvaða stigum lagsbræður hans eða -systur voru. Hann var vitanlega um svo margt líkur hinum fjölhæfu foreldrum sínum. Hann var leikari, eins og þau, svo leikstjóri, leikhússtjóri og loks ráðgjafi í menningarmálum og framkvæmdastjóri Arkitektafélagsins. Starfsframi hans varð eins og af sjálfu sér. Það var ekki í eðli hans að trana sér fram eða sækjast eftir metorðum.

Eitt haustið á áttunda áratugnum komum við Hildur og Dagur til Stokkhólms. Af tilviljun lentum við í stúdentahverfi þar sem Sigga, Halli og Herdís bjuggu fyrir og af tilviljun fengum við úthlutað íbúð í stigaganginum þar sem þau bjuggu. Árin sem í hönd fóru urðu okkur öllum svo sannarlega eftirminnileg og þýðingarmikil um alla framtíð. Aðbúnaðurinn var okkur hliðhollur og við öll í námi; Herdís í leikskóla, Dagur í grunnskóla hverfisins, við hin í háskólanámi og starfi. Við nutum um margt góðs af sænsku velferðarþjóðfélagi og tókum þátt í þeirri leit að réttlátu samfélagi sem þá stóð yfir meðal Svía. Þegar námsdvölinni lauk og við fluttum heim tók við veruleiki hins smáskrítna Íslands. Hallmar leikstýrði og varð svo leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur um fjögurra ára skeið, fyrst í Iðnó og svo í Borgarleikhúsinu. Þar var ég honum til aðstoðar. Svo gegndi hann stöðu leiklistarstjóra Ríkisútvarpsins um árabil. Ég var á Fréttastofunni og stundum tókum við okkur spjallstund nærri kaffivélinni. Ég átti það til að falla í bölmóð yfir vegvillum samfélagsins, þess íslenska fyrst og fremst, en líka rann mér til rifja hvernig borgaraöflin í Svíþjóð tættu niður það samfélag sem góðir kratar og verkalýðshreyfing höfðu byggt upp. Hallmar féll ekki í depurð af neinu tagi yfir pólitík heimsins. Bölmóður og þunglyndi herja á æskuna, sagði hann einhverju sinni; allt fer þetta einhvern veginn.  Jákvæður, einlægur, tillögugóður, skilningsríkur og fyndinn. Þannig maður var hann.

Æ, hvað við söknum hans, fjölskyldan af efri hæðinni.


Gunnar Gunnarsson.