Erla Lóa fæddist 16. maí 1962 í Hafnarfirði. Hún lést 7. febrúar 2017 á Ítalíu.
Foreldrar Erlu Lóu eru Ástvaldur Eiríksson, fyrrverandi varaslökkvistjóri á Keflavíkurflugvelli fæddur á Seyðisfirði 20. desember 1938 og Katla Margrét Ólafsdóttir húsmóðir, fædd í Reykjavík 7. ágúst 1936, dáin 26. febrúar 2012. Systkini Erlu Lóu eru: 1) Ólafur Þorkell, maki Lára Björnsdóttir. 2) Lárus Rúnar, maki Kristín Stefánsdóttir. 3) Svanfríður Helga, maki Ágúst Kárason. Erla Lóa giftist Mario Raggi árið 1992, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Linda Katla, fædd 13. júlí 1985, maki Carlo Riva. 2) Marco, fæddur 14. júní 1988, sambýliskona Veronica Troi. 3) Erika, fædd 11. nóvember 1994, sambýlismaður Edoardo Di Mario. Erla Lóa ólst upp í Njarðvík og síðar í Kópavoginum þar sem hún kláraði sína skólagöngu. Eftir það fór hún í Kvennaskólann og fór svo á vit ævintýranna til Ítalíu þar sem hún kynntist eiginmanni sínum og stofnaði fjölskyldu þar. Hún bjó allan sinn tíma á Ítalíu í Udine og starfaði með Mario í fyrirtækjum hans. Áhugi hennar var á mannlegu hlið lífsins og fór hún og menntaði sig í sálfræði. Hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki þar sem hún kenndi ensku. Aðalástríða hennar var eldamennska og allt sem tengdist næringu og heilsu. Erla Lóa greindist með krabbamein árið 2015 og barðist hetjulegri baráttu fram á síðasta dag með sinni einstöku jákvæðni og bjartsýni sem einkenndi Erlu alla tíð.
Útför Erlu Lóu fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 21. apríl 2017, klukkan 11.

Hún Erla Lóa systir mín var engum lík, ótrúleg jákvæðni og bjartsýni einkenndi hana alla tíð. Hún hafði töfrandi bros sem smitaði alla í kringum hana, t.d. þegar hún gekk inn í herbergi sem var fullt af fólki voru eftir skamma stund allir farnir að brosa og komnir í létt skap. Hún smitaði frá sér einstökum persónutöfrum án þess að gera sér grein fyrir því og fólkið í kringum hana fór að hlæja og spjalla hvert við annað án þess jafnvel að það þekktist sérstaklega.
Hún var alla tíð mikill ástríðukokkur, næring og heilsa skiptu hana miklu máli og var hún mjög fær næringarfræðingur, fór á ýmis námskeið tengt því. Maturinn skyldi einnig vera fallega borinn fram þar sem maður byrjar að borða með augunum eins og hún sagði alltaf sjálf. Hún lærði ung að elda alla töfra Miðjarðarhafsins í eldhúsinu, ítalskan eins og hann gerist bestur, nánast fullkominn, af tengdamóður sinni Önnu. Tengdamóðir hennar var henni sem móðir alveg frá byrjun sem var Erlu ómetanlegt og samband þeirra einstakt alla tíð. Fjögurra tíma eldamennska af gamla skólanum var sjálfsögð alla daga, ekkert mál og alltaf borðaður hádegismatur kl. 13 að ítölskum sið, öll fjölskyldan saman en ekki klukkan 12 eins og gert er hér á landi. Hún byrjaði alltaf á að fara á markaðinn eða til kaupmannsins á horninu kl. 8 á morgnana og allt keypt ferskt fyrir daginn og þetta varð strax venjan á heimilinu. Hún ól upp sín yndislegu börn, Lindu, Marco og Eriku ásamt Mario, eiginmanni og barnsföður. Jafnvel þó börnin væru flogin úr hreiðrinu og þau skilin þá kom sonur hennar Marco oftast við hjá mömmu sinni í hádeginu áfram til að fá bæði hollan og góðan mat. Nú seinni árin bjó Marco einn barna hennar í Udine á Ítalíu. Litla yndislega bænum hennar sem hélt svo vel utan um hana og hún þekkti svo vel inn og út. Þar átti hún  margar  sínar bestu stundir og eignaðist góða vini og fjölskyldu. Já, þó hún væri skilin var hún ekki skilin við stórfjölskylduna hans sem stóð alla tíð þétt við bakið á henni eins og hennar eigin væri. Ekki síst eftir að hún veiktist kom tryggð fjölskyldunnar vel fram og allir vildu passa upp á hana, þó svo að Erla léti aldrei bera á veikindum sínum við aðra.
Erla Lóa bjó á Ítalíu (frá 1982) í 35 ár, hún sogaði í sig ítölsku menninguna, sem hún elskaði og góða veðrið sem hún naut alla tíð og við líka þegar við komum í heimsókn til hennar. Á þessum tíma var mikið mál að hringja milli landa og tölvutæknin ekki komin til sögunnar sem síðar meir auðveldaði öll samskipti. Vorum við systurnar fegnar að vera lausar við þessu háu símareikninga í upphafi. Við töluðum saman í síma örugglega í klukkutíma á hverjum degi og töluðu þær mamma saman annað eins flesta daga fyrst í síma en svo á skype eða allt þar til mamma lést árið 2012.
Röð og regla var stór hluti af lífi systur minnar. Ísskápurinn alltaf eins og það eigi að fara að taka mynd fyrir auglýsingu. Og fataskáparnir eins, hún hafði alltaf vetrafötin brotin saman í poka á sumrin og öfugt á veturna, þá var sumarfötum pakkað og þau klár fyrir vorið. Allt átti sinn stað hvar sem var á heimilinu.
Erla var mikill fagurkeri, unni fagurri list og ítalskri gæðahönnun, heimili hennar bar þess merki sem var alltaf fágað og glæsilegt eins og hún sjálf. Hún var alltaf mjög vel til fara og öll föt fóru henni einhvern veginn betur en öðrum sem voru jafnvel í eins fötum. Hún var mjög fljót að ákveða sig með allt sem hún keypti, annað hvort var ást við fyrstu sýn eða hún leit ekki á það, hvort sem það voru föt eða eitthvað fyrir heimilið. Þó regla ríkti á heimilinu var Erla Lóa algjört fiðrildi, hún hafði mjög svo frjótt hugmyndaflug og flögraði auðveldlega á milli málefna og staða eins og ekkert væri og var ekki alltaf auðvelt að fylgja henni eftir. Erla vann við ýmis skrifstofustörf og kenndi ensku í nokkur ár og lærði síðan nudd eftir að hún greindist með krabbameinið, nokkuð sem hana langaði alltaf til að læra. Þetta sýnir andlegan styrk Erlu og af henni getum við lært að allir ættu að reyna að láta drauma sína rætast á meðan tækifæri er til þess. Hún var með nuddstofuna sína opna þar til í haust sl. Músíkin sem við systurnar völdum saman á spotify til að spila á nuddstofunni lifir áfram sem Erla spa og heillar alla þá sem á hlusta, hún er í mínum huga einhvern veginn óður til lífsins og róar hugann í amstri dagsins og minningar um einstaka persónu streyma fram.
Hún elskaði börnin sín þrjú alveg óendanlega mikið og voru þau stolt hennar og gleði alla tíð. En Erla var fyrst og fremst frábær og einstök húsmóðir og móðir og auðvitað var hún alltaf frábær og yndisleg systir og náin vinkona líka.
Linda Katla er elst, hagfræðingur, býr og starfar í London ásamt eiginmanni sínum Carlo, einnig hagfræðingur. Linda sem er mjög jarðbundin og hefur einstaklega traustan og góðan persónuleika varð smátt og smátt eftir því sem árin liðu ankeri fyrir móður sína og rökrétta jafnvægið í öllum frábæru hugmyndum hennar. Erla naut þess að geta alltaf verið að springa úr stolti yfir frábærum árangri dóttur sinnar bæði í skóla og starfi. Marco rekur eigið fyrirtæki í Udine og býr þar ásamt kærustu sinni Veroniku. Hann er alltaf svo hógvær og prúður en þó svo fullur af lífi og hugmyndum eins og mamma sín og dýrkar líka hágæða mat, hann var kletturinn í lífi hennar seinni árin. Hann var alltaf löngu búinn að sjá fyrir allar hennar þarfir áður en hún vissi af því sjálf að einhverju væri ábótavant.  Svo litla fiðrildið Erika, sem er að klára master í sálfræði í háskóla í Mílanó þar sem hún býr með Edo kærasta sínum, svo lík mömmu sinni flögrandi um eins og hún í dillandi gleði og leik og saman sáu þær fegurðina í öllu, sérstaklega mannlífinu sem heillaði þær báðar mikið. Þær gátu endalaust spjallað og velt upp mannlegu hliðinni á tilverunni og notið þess að dreyma saman í kósýheitum heima þegar Erika kom til Udine. Missir þeirra er mikill.
Við Erla höfum alltaf verið mjög nánar. 14 mánuðir á milli okkar, mamma klæddi okkur alltaf eins þegar við vorum litlar, eins og tvíbura nema ég dökkhærð og hún ljóshærð, ég hávaxin en hún lágvaxin. Við gátum byrjað á setningu og hin klárað hana, tókum upp símtólið til að hringja og hin var á línunni án þess að það hafi hringt. Mig langar ekki að tala um allt sem við áttum saman, heldur geyma það í hjarta mínu, núna bíður mín það verkefni að lifa lífinu án þín, elskan mín. Mig langar frekar að tala um hana og líf hennar þar sem hún bjó erlendis mestalla ævi sína. Maður skilur ekki hvaðan fólk eins og þú fær kraftinn sem það býr yfir þegar lífsdómurinn er uppkveðinn. Erla tók strax afstöðu, hver dagur skyldi vera þess virði að lifa fyrir og lifa í gleði, hún kvartaði aldrei og leit á krabbameinið sem verkefni sem henni var úthlutað, æðruleysi og yfirvegun, jákvæðni og bjartsýni voru einkunnarorð hennar. Hún þráði að vera með í brúðkaupi Lindu dóttur sinnar og Carlo í haust og sá draumur rættist sem hún naut til hins ýtrasta í gleði og þakklæti. Nærfjölskyldan, við systkinin og makar og börn okkar ásamt pabba fórum í brúðkaupið sem var hið glæsilegasta sem við höfum séð, fullkomið eins og Erla vildi hafa það og að við fengum að upplifa þetta einstaka brúðkaup með henni og fjölskyldu hennar og vinum, við gleymum því aldrei. Hún hélt þar ræðu yfir brúðhjónunum ungu, svo einlæg og falleg beint frá hjartanu sem lét engan viðstaddan ósnortinn sem á hlýddi. Erla var ótrúlega glæsileg og falleg og ýtti öllum veikindum frá með ofurkrafti sem hún ein átti til. Allir stóðu upp og klöppuðu á eftir og engan gat grunað að sjúkdómurinn væri að taka yfirhöndina í þessari baráttu hennar á þessum eina mesta gleðidegi í lífi elsku Erlu minnar og fjölskyldu hennar. Við stórfjölskyldan áttum síðan tíu yndislega daga með henni við Gardavatnið og ég var áfram í tvær vikur hjá henni eftir það svo kom hún til Íslands í 3 vikur í haust og var á leið hingað aftur yfir jólin þegar veikindin bönkuðu upp á. Elsku Erla mín, þín er sárt saknað, engin orð fá lýst þeim söknuði. Bless elsku systir mín þar til við hittumst næst. Guð gefi börnum þínum, fjölskyldu og vinum styrk í þeirra mikla missi, ást og friður, þín systir

Helga og Ágúst.