Jóhann Sigurður Svavarsson fæddist á Patreksfirði 4. mars 1946. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans föstudaginn 2. júní 2017.
Hann var sonur hjónanna Svavars Jóhannssonar, f. 1914, d. 1988, og Huldu Pétursdóttur, f. 1924. Systkini Jóhanns eru Sigþór Pétur, f. 1948 og Unnur Berglind, f. 1962. Hennar maki er Kjartan Gunnsteinsson.
Jóhann var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona Jóhanns var Hansína Ólafsdóttir, f. 1942. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Dögg, f. 1966. Hennar maki er Arnar Þór Sigurðsson. Börn þeirra eru: a) Bjarki Þór, f. 1992 og b) Hildur Hrönn, f. 1997. 2) Hulda Lind, f. 1966. Fyrrverandi sambýlismaður hennar er Robert Wiström. Börn þeirra eru: a) Kaspar Eldjárn, f. 2002 og b) Dísa Dögg, f. 2004. 3) Sigríður Arndís, f. 1972. Hennar maki er Ótthar Edvardsson. Börn þeirra eru: a) Edvard Börkur, f. 1992. Börn hans eru Kristian Leví, f. 2014 og Arndís Helga, f. 2016. Sambýliskona Edvards er Sara Björk Einarsdóttir. b) Auður Ósk, f. 2001, d. 2001, c) Andrea Ósk, f. 2002, d) Arnór Gauti, f. 2005 og e) Þuríður Eva, f. 2007. Fyrir átti Hansína soninn Eirík Hansínuson, f. 1964, og gekk Jóhann honum í föðurstað. Börn Eiríks eru Hansína Hlín, f. 2000 og Brynjar Ljós, f. 2003.
Eftirlifandi eiginkona Jóhanns er Sigríður Björg Gísladóttir, f. 1946. Börn hennar eru: 1) Ævar Örn Magnason, f. 1968, d. 1990. 2) Daði Magnason, f. 1970. Sambýliskona hans er Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Börn Daða frá fyrra sambandi eru: a) Lena Björg, f. 1990. Hennar sonur er Lárus Bragi, f. 2014. b) Sigríður, f. 1993. Hennar sonur er Gústaf Leó, f. 2014. c) Þórunn, f. 1994. 3) Gísli Magna Sigríðarson, f. 1971. Sambýlismaður hans er Ansgar Bruno Jones.
Jóhann lauk prófum frá Barna- og unglingaskólanum á Patreksfirði og gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði. Hann lauk síðar sveinsprófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum á Patreksfirði, meistari hans þar var Valgeir Jónsson. Hann vann um tíma á Patreksfirði hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, RARIK í Reykjavík og varð síðar rafveitustjóri í Skagafirði. Hann lagði stund á nám við Hólaskóla og lauk einnig leiðsögumannanámi frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Jóhann var mikill náttúruunnandi og var umhugað um náttúruvernd. Hann stofnaði ásamt fleirum leiðsögufyrirtækið Umfar á Patreksfirði og starfaði þar í nokkur ár sem leiðsögumaður. Jóhann og Sigríður keyptu Kaupfélagshúsið á Patreksfirði. Eftir umfangsmiklar breytingar og endurbætur hófu þau þar hótelrekstur undir nafninu Hotel West sem þau hafa starfað við síðustu ár.

Útför Jóhanns fer fram í Neskirkju í dag, 23. júní 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Samstarfsfélagi minn og vinur um árabil, Jóhann Svavarsson, er fallinn frá, mér liggur við að segja langt um aldur fram, því að þó að Jóhann væri orðinn 71 árs gamall, þá var þrek hans, elja, kraftur og framsýni eins hjá mönnum áratugum yngri en hann.

Ég kynntist Jóhanni fyrst fyrir fimm árum, sumarið 2012. Við vorum leiddir saman, tveir ókunnugir menn með ólíkan bakgrunn og reynslu, en keimlíka framtíðarsýn á ferðaþjónustu fyrir sunnanverða Vestfirði. Ég hafði þá komið lítils háttar að undirbúningi Fosshótela við opnun nýs hótels á Patreksfirði, og sú undirbúningsvinna sannfærði mig um þá miklu möguleika til ferðaþjónustu sem fælust í þessu svæði. Jóhann hafði þá um árabil rutt brautina og stofnað ásamt fleirum fyrirtækið Umfar, sem bauð upp á skemmtilegar gönguferðir undir leiðsögn um gamlar þjóðleiðir á svæðinu, auk almennrar leiðsagnar. Jóhann var á þessum tíma starfsmaður hjá RARIK á Sauðárkróki, en kaus að verja sumarleyfum sínum á þennan frumlega og skemmtilega hátt.

Jóhann var mikill sagnamaður og fróður að endemum. Hann kunni skil á ólíkustu örnefnum, reiddi fram sögur af mönnum og málefnum frá mismunandi tímum, þannig að atburðir birtust manni ljóslifandi fyrir sjónum. Hann var mikið náttúrubarn, alinn upp á Patreksfirði, í faðmi fjalla, fjarða og hrikalegra bjarga, stundaði ungur sjósókn og skólasókn á Vestfjörðum, hafði margoft sigið í Látrabjargi og kunni skil á öllum heiðum, giljum og náttúrulífi. Hann skildi lögmál og gang náttúrunnar, ekki bara frá einni árstíð til annarrar, heldur frá einni viku til þeirrar næstu. Þetta svæði átti hug hans allan. Hann hafði stuttu áður aflað sér réttinda sem svæðisbundinn leiðsögumaður. Í frumkvöðlastarfi sínu í Umfari hafði hann kortlagt allar gömlu gönguleiðirnar milli bæja og byggðarlaga, og notaði þær til að byggja upp úrval af skemmtilegum gönguleiðum nútímans og var sjálfur fjársjóður af fróðleik um allt þar að baki. Jóhann var saga, menning, náttúra allt sem í þessum orðum felst.

Við stungum saman nefjum yfir kaffibolla nokkrum sinnum þetta sumar, milli þess sem hann leiddi hópa í mismunandi langar og erfiðar gönguferðir, m.a. í kolanámurnar í Stálfjalli, sem er þó ekki nema fyrir hrausta einstaklinga á besta aldri. Jóhann blés ekki úr nös og vílaði það ekki fyrir sér fara yfir framtíðarsýn sína á ferðaþjónustuna eftir slíkar ferðir, löngu eftir að ferðamennirnir sjálfir voru gengnir til náða, þrotnir af kröftum og vonuðust til þess að eiga eitthvað eftir í gönguferðina næsta morgun. Að minnsta kosti að halda í við þennan undraleiðsögumann, sem gekk á við unglamb.
Úr varð að við stofnuðum ferðaþjónustufyrirtækið Westfjords Adventures í samstarfi við Fosshótel og fleiri góða aðila, og þannig hófst samstarf okkar, sem varð nánara og dýpra með hverju ári. Westfjords Adventures var fyrsta ferðaskrifstofan á sunnanverðum Vestfjörðum. Þennan sama vetur réðumst við tveir í að kaupa gamla kaupfélagshúsið á Patreksfirði, sem þótti af mörgum glapræði en átti eftir að koma rækilega við sögu síðar. Við náðum síðan að opna fyrirtækið í maí 2013, á sama tíma og Fosshótel Vestfirðir og héldum veglega opnunarveislu í gamla kaupfélagshúsinu fyrir heimamenn stuttu síðar.
Opnun Westfjords Adventures og Fosshótel-Vestfjarða í maí 2013 markaði straumhvörf í ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum, og á Vestfjörðum í heild. Með þeim sköpuðust loksins tækifæri til hringferðar um Vestfirði, og nú opnuðust möguleikar á að njóta þessarar einstöku náttúruperlu, sem sunnanverðir Vestfirðir eru. Áður höfðu 1-2 þúsund ferðamenn haft næturdvöl á Patreksfirði. Eftir fyrsta sumarið voru þeir orðnir yfir 8 þúsund. Þess sáust glögglega merki á götum bæjarins yfir sumarmánuðina. Eða eins og Jóhann orðaði það sjálfur: Áður var Patreksfjörður endastaður, nú erum við í þjóðbraut, á þessu er grundvallarmunur.

Gamla kaupfélagshúsið var Jóhanni einkar kært. En af hverju? Hann rifjaði það upp af glettni og með brosi á vör, afi hans hafði byggt það og faðir hans unnið þar lengstum. Húsið átti því veglegan stað í sálinni. Þegar við tókum við húsinu var Snorrabúð stekkur, lítil sem engin starfsemi hafði verið þar um árabil. Þarna sköpuðust hins vegar nýir möguleikar með opnun mikilvægrar ferðamannamiðstöðvar, sem fól í sér upplýsingamiðstöð, ferðamannaverslun og miðpunkt ferðaþjónustu á Patreksfirði. Eftir fyrsta sumarið ákváðum við Jói síðan að breyta rishæðinni í gistiheimili og til þess þurfti mikið átak í lagfæringar og betrumbætur á húsnæðinu. Jói tók að sér að verkstýra öllu ferlinu, og gerði það af slíkri atorku og eftirfylgni að í byrjun júní 2014 var nýtt 10 herbergja gistiheimili komið í fulla starfsemi. Þetta varð grunnurinn að starfsemi Hótel WEST, sem síðan hefur blómstrað. Og allt það sumar lét Jói ekki deigan síga, hélt áfram að fara með stóra sem litla hópa í mismunandi erfiðar gönguferðir með lýsingar á sögu, menningu og náttúru, sem enginn hefur enn leikið eftir.

Vorið 2015 fóru óvænt veikindi að hrjá minn kæra félaga, hann leitaði sér læknismeðferðar um sumarið og kom út úr því sem sigurvegari. Í gegnum allt ferlið sýndi hann einstakt baráttuþrek og mikinn viljastyrk, sem margir gætu lært af. Hann sýndi það og sannaði, að máttur viljans getur ráðið úrslitum um það á hvorn veg hlutirnir fara, að hugarfar getur orðið svo sterkt afl að það yfirvinni eðlileg náttúrulögmál. Svo mjög að þegar við heimkomu gátum við hafist handa um næsta áfanga í stækkun hótelsins og að ljúka lagfæringum á húsnæðinu. Enn og aftur tók Jói að sér verkstjórnina og verkefninu lauk á vordögum 2016.

Utanaðkomandi aðstæður leiddu til þess að leiðir okkar skildi á þessum vormánuðum. Báðir höfðum við fullan skilning á þeim aðstæðum og ég hvarf til annarra viðfangsefna. Óhjákvæmilega urðu samskiptin minni í kjölfarið. En brottför hans héðan úr þessu lífi kom mér algjörlega í opna skjöldu og svo var um fleiri. Hann hafði kennt slappleika fyrr á þessu ári, en engan grunaði að þar byggju undir þau líkamlegu átök, sem leiddu hann svo fljótt yfir til Austursins eilífa.

Eftir sitja ótölulegar minningar um óvenjulegan mann, með stórt og mikið hjarta, sem setti mark sitt á ævi mína á svo undramargan hátt og á svo ótrúlega skömmum tíma. Jói var mér afar kær. Eftir situr minning um náið og djúpt samstarf ólíkra manna, sem leiddir voru saman og spunnu örlögin í svo þéttan vef að með ólíkindum telst. Eftir situr minning um mann, sem var umfram allt strangheiðarlegur, opinn, einlægur, viljafastur, litríkur og staðfastur. Mann sem hafði sterka, hreina og skýra framtíðarsýn. Mann sem er öðrum fyrirmynd í öllu litrófi lífsins, með kostum sínum og göllum þannig gaf hann okkur það verðmætasta sem hann átti og okkur er svo kært.

Ég get ekki lokið þessari umfjöllun hér án þess að nefna Sigríði Björgu Gísladóttur, eiginkonu hans. Hún er einstök manneskja að gæðum og atgervi. Hún var Jóa stoð hans og stytta, félagi og besti vinur, æskuástin og eilífðarástin. Það fór ekki á milli mála nokkrum manni sem kynntist Jóa náið. Saman hafa þau byggt upp hótelreksturinn á Patreksfirði undanfarin ár. Ég færi henni, og börnum þeirra, ekki síst dætrum Jóhanns, mínar innilegustu samúðarkveðjur, um leið og ég þakka almættinu fyrir að hafa notið þeirra forréttinda að kynnast þeim hugumprýdda manni, sem við nú kveðjum, í bili.

Einar Kristinn Jónsson.