Faxamjöl hf: Tvær fiskimjölsverksmiðjur í eitt REKSTUR Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar hf. í Reykjavík og Lýsis og mjöls í Hafnarfirði hefur verið sameinaður í eitt fyrirtæki, Faxamjöl hf.

Faxamjöl hf: Tvær fiskimjölsverksmiðjur í eitt

REKSTUR Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar hf. í Reykjavík og Lýsis og mjöls í Hafnarfirði hefur verið sameinaður í eitt fyrirtæki, Faxamjöl hf. Faxamjöl mun starfrækja fiskimjölsverksmiðjur fyrirtækjanna í Reykjavík og Hafnarfirði, auk þess sem það mun framleiða laxafóður. Eigendur fyrirtækisins eru Grandi hf., Hraðfrystistöðin í Reykjavík hf. og Lýsi hf.

Í frétt frá hinu nýja fyrirtæki segir að með sameiningu fyrirtækjanna náist veruleg hagræðing í rekstri með betri nýtingu á verksmiðjunum. Faxamjöl tekur við öllum skuldbindingum fyrirtækjanna tveggja.

Stjórn Faxamjöls er þannig skipuð: Stjórnarformaður er Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri Lýsis, varaformaður Brynjólfur Bjarnason framkvæmdastjóri Granda, Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvarinnar, Árni Vilhjálmsson prófessor, Jónas A. Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, Sigurður Einarsson framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja og Ingi Ú. Magnússon gatnamálastjóri.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur verið ráðinn Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson. Skrifstofur Faxamjöls eru við Norðurgarð í Örfirisey.