Halloumi fær upprunavernd

Framleiðendur ostins utan Kýpur þurfa að finna honum nýtt nafn. …
Framleiðendur ostins utan Kýpur þurfa að finna honum nýtt nafn. MS selur sinn ost í anda halloumi undir nafninu grillostur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halloumi-osti hefur verið bætt á lista Evrópusambandsins yfir vörur sem njóta upprunaverndar. Í því felst að aðeins má selja ost undir því nafni sé hann framleiddur á eyjunni Kýpur í samræmi við hefðir.

Þetta var ákveðið á fundi ráðherraráðs Evrópusambandsins í síðustu viku, en reglurnar taka formlega gildi um miðjan þennan mánuð. „Þetta er sögulegt afrek fyrir Kýpverja,“ segir Stella Kyriakides, heilbrigðisstjóri Evrópusambandsins, en hún er sjálf frá Kýpur.

Nokkur fjöldi vara nýtur slíkrar upprunaverndar innan ESB, en sem dæmi má nefna parmaskinku, sem verður að koma frá ítalska héraðinu Parma eða nágrenni þess, og feta. Í reglunum er ekki aðeins kveðið á um upprunaland heldur einnig, eftir atvikum, framleiðsluaðferðir.

Ísland hefur gert samning um gagnkvæma upprunavernd við Evrópusambandið og því má ætla að reglurnar gildi einnig á Íslandi. Þannig þurfti Mjólkursamsalan í fyrra að hætta að selja ost undir heitinu fetaostur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert