Helga Magga kennir kransakökugerð

Helga Magga heldur áfram að toppa sig og nú kennir …
Helga Magga heldur áfram að toppa sig og nú kennir hún kransakökugerð. Ótrúlega gaman að fylgjast með henni á Tik Tok að gera kransaköku. Samsett mynd

Helga Magga fer á kostum í kransakökugerð á Instagram-síðu sinni og ekki nóg með það, heldur gerði hún líka myndband fyrir fylgjendur sína á Tik Tok. Þegar horft er á Helgu Möggu baka kransaköku þá virkar baksturinn og skreytingarnar vera hið auðveldasta verk. Nú gengur í garð fermingartímabil og páskarnir eru í nánd og þá eru kransakökur upplagðar á veisluborðið. Síðan er hægt að leika sér með skraut og litaþema eftir smekk hvers og eins.

Myndband á Tik Tok

„Mér finnst kransakaka alveg ómissandi á veisluborðum í fínum veislum. Ég prófaði að baka kransaköku fyrir skírn hjá elstu dóttur minni og það gekk ljómandi vel þannig að ég hef alltaf bakað kransakökur síðan. Í fyrsta skipti gerði ég samt prufu og ég mæli algjörlega með því að baka nokkra hringi og sjá hvernig þeir koma út, áður en þú ferð í eitthvað stærra verkefni,“ segir Helga Magga um kransakökugerðina. Helga Magga gerði kransakökuleiðbeiningar á Tik Tok, sem hægt er að horfa á myndbandi í heilu lagi hér og hér fyrir neðan.

Best að baka tímanlega og geyma í frysti

Mælt er með því að baka kransakökuna tímanlega og frysta hana. Hún verður betri þannig að mati Helgu Möggu. Síðan er lag að taka hana út úr frystinum kvöldinu áður en það á að skreyta hana eða að morgni. En það má líka baka hana deginum áður og láta hana þá standa á borði yfir nótt og skreyta daginn eftir. Helga Magga mælir með því að baka og frysta beint og segir að kakan verði betri þannig og áferðin fallegri.

„Það er skemmtilegt að baka kransaköku sjálfur, ódýrt, en vissulega tekur það smá tíma. Skemmtilegt að baka saman með fermingarbarni og leyfa því að velja skrautið sem fer á kökuna. Ég elska að skreyta kökur með lifandi blómum, alltaf gott þegar notuð eru lifandi blóm að setja þau á kökuna stuttu fyrir veisluna, að minnsta kosti ekki kvöldinu áður,“ segir Helga Magga að lokum.

Kransakaka

14-16 hæðir/hringir

  • 1 kg kransakökumassi (þetta bleika)
  • 500 g sykur
  • 2 eggjahvítur

Kransakaka

18 hæðir/hringir

  • 1,5 kg kransakökumassi (þetta bleika)
  • 750 g sykur
  • 3 eggjahvítur

Glassúr til skreytingar

  • 1 eggjahvíta
  • Flórsykur (misjafnt hversu mikið)
  • Sítrónusafi nokkrir dropar

Aðferð:

  1. Þið byrjið á að hræra massanum og sykrinum aðeins saman í hrærivél eða matvinnsluvél og setjið svo eggjahvíturnar út í og hrærið áfram.
  2. Massinn á að vera þéttur og ekki of blautur. Ef eggin eru stór gæti verið gott að nota aðeins minna af eggjahvítunum. Helga Magga lætur svo massann standa í kæli yfir nótt áður en hún baka úr honum eða kæli í nokkrar klukkustundir.
  3. Þegar þið hefjist handa við að búa til hringina, skerið þið smá part af massanum og rúllið í lengjur og notið reglustriku eða málband til að mæla þykktina, lengjan á að vera 1,5 cm á breidd. Margir form en Helga Magga notar aldrei form þegar hún býr til kransaköku.
  4. Þið rúllið lengjunni svo hún verði 1,5 cm á breidd, og klappið svo með lófanum öðru megin á endann til að mynda kransakökuformið (sjá myndband).
  5. Síðan takið þið svo reglustrikuna og mælið fyrsta hringinn 10 cm langan. Síðan bæti þið við um svona 3 cm fyrir næsta hring, 13 cm lengja, 16 cm lengja, 19 cm lengja og svo framvegis.
  6. Helgu Möggu finnst mjög mikilvægt að skrifa niður á blað þessar tölur, 10, 13, 16, 19, 22, 25, 28, 31 og svo framvegis og merkja svo við á blaðið um leið og þið eruð búin að búa til hringinn. Annars er hætta á að þið ruglist og það er mjög leiðinlegt að vera búin að baka kökuna og gleyma einni hæð.
  7. Þið takið svo lengjurnar og búið til hringi, verið þá með smá vatn í skál og notið 1-2 dropa til að loka sárinu ef þarf á því að halda. Setjið svo hringina á plötu og reynið að raða þeim vel með smá bil á milli hringja. Bakið ekki hringi innan í öðrum hringjum, setjið frekar á fleiri plötur.
  8. Helga Magga mælir með þegar hringirnir eru settar á bökunarplötuna að skrifa á bökunarpappírinn við hvern hring hversu langur hann er, bæði til að tvítryggja að þið séuð búin að gera alla hringina og einnig ef einhver hringur yrði of dökkur eða myndi skemmast einhverra hluta vegna, þá vitið nákvæmlega hvaða hring þið þurfið að baka aftur. Það er mjög erfitt að sjá hvað hver hringur er langur í cm talið þegar hann er orðinn samansettur í hring og einnig þegar búið er að baka hann.
  9. Annað gott ráð er að þegar þið setjið hringina á bökunarplötu og þeir eru orðnir smá stórir þá er sniðugt að setja skál eða eitthvað hringlaga innan í til að passa að hringurinn verði sem réttastur.
  10. Áður en þið bakar hringina er vert að horfa á þá á hlið og dúmpa aðeins ofan á þá með blaðinu á hníf eða öðru sléttu ef þið sjáið einhverjar misfellur svo kakan verði sem réttust þegar henni er raðað saman.
  11. Bakið hringina við 190°C hita í um það bil 11-13 mínútur. Þið þurfið samt að fylgjast vel með þegar um 9 til 10 mínútur eru liðnar og passa að hringirnir verði ekki of dökkir. Lengdin á bakstrinum snýst eingöngu um litinn, við viljum að hringirnir séu ljósbrúnir, en það er einnig smekksatriði eins og svo margt annað. 
  12. Frystið síðan hringina/kökuna og takið út kvöldinu áður en þeir eru settir saman og kakan skreytt eða sama morgun. Helga Magga er yfirleitt að skreyta kransakökuna daginn fyrir veisluna.
  13. Þegar þið þeytið saman glassúrinn þá er í notað ein eggjahvíta, flórsykur og nokkrir dropar af sítrónusafa.
  14. Gott er að sigta flórsykrinum út í. Þið setjið flórsykur út í skálina þar til blandan fer að þykkna og verður teygjanleg. Ef glassúrinn er of þykkur þá bætið þið við meiri sítrónudropum út í og ef hann er of blautur þá bætið þið meiri flórsykri út í. 
  15. Áður en þið byrjið að sprauta glassúrnum á kökuna er mikilvægt að raða henni upp og skoða hvort allir hringirnir séu ekki til staðar. Þið byrjið að sprauta á neðsta hringinn, setjið smá glassúr undir til að festa hann við diskinn og sprautið svo á kökuna. Einn hring í einu, leggur svo næsta hring ofan á og heldur þannig áfram kolli af kolli, þannig festist kakan saman.
  16. Mestu máli er glassúrinn á kökunni, að hafa línurnar mjóar. En allt er þetta spurning um smekk hvers og eins. Engar áhyggjur ef eitthvað lítur ekki nógu vel út, þið getur tekið nýsprautaðan glassúr af kökunni með klút eða með puttanum og sprautað aftur á. Eftir á er alltaf hægt að fela misfellur með skrauti. Það má líka sjást að kakan sé heimagerð, það er sjarmi yfir því.
  17. Veljið síðan skraut og kræsingar á kransakökuna eftir því sem hugur ykkar og smekkur girnist. Leyfið hugmyndafluginu að fara á flug, það er ýmislegt sem getur komið út úr því.
@helgamagga.is

Hvernig á að baka og skreyta kransaköku. Nánari leiðbeiningar á www.helgamagga.is

♬ Girly and cute synth pop - SAKUMAMATATA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert