Bílum fjölgar hratt í Peking

Dæmigerð mynd úr umferðinni í Peking. Hún var tekin þar …
Dæmigerð mynd úr umferðinni í Peking. Hún var tekin þar í borg í fyrradag. reuters

Bílum hefur fjölgað hratt á götum Pekingborgar á undanförnum árum. Fyrir áramót verða þeir orðnir fjórar milljónir en íbúar borgarinnar eru um 17 milljónir. Eru sex milljónir þeirra með ökuréttindi.

Á bifreiðaskrá Pekingborgar voru sl. sunnudag skráðar 3,99 milljónir bíla og er búist við að næstu daga skríði þeir yfir fjögurra milljóna múrinn. Um 10.000 nýskráningar eiga sér stað í viku hverri.

Miklum fjármunum hefur verið varið til umbóta í samgöngukerfi Peking undanfarin ár en það hefur mátt sín lítils til úrbóta vegna örrar fjölgunar bíla.

Reiðhjól einkenndu samgöngur í kínversku höfuðborginni löngum en vegir borgarinnar eru meira og minna tepptir bílum nú til dags. Borgaryfirvöld segja að fjölgun bíla sé vandamál í borginni.

Þegar kommúnistar komust til valda árið 1949 voru aðeins 2.300 bílar á götum Peking. Liðu 48 ár áður en fjöldi þeirra náði milljón. Þeim hefur hins vegar fjölgað um milljón síðustu tvö árin, úr þremur í fjórar.

Reiðhjólum hefur snarfækkað á götum Peking eftir að efnahagslegur uppgangur gerði almenningi kleift að kaupa sér bíl. Nú eru bílarnir orðnir svo margir að gripið hefur verið til alls konar takmarkana á notkun þeirra.

Prófessor við Jiaotong-háskólann í Peking segir eina skynsamlegustu lausnina á umferðarvandanum vera þá að grípa til ráðstafana er stuðli að og hvetji fólk til að taka hjólhestinn að nýju í þjónustu sína í stað bílsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert