Fátækt eykst í Bandaríkjunum

Atvinnulaus maður skoðar laus störf í boði við atvinnumiðlun í …
Atvinnulaus maður skoðar laus störf í boði við atvinnumiðlun í San Francisco. Reuters

Börnum í Bandaríkjunum sem lifa undir fátæktarmörkum hefur fjölgað í fjármálakreppunni og má nú ætla að fimmta hvern barn í Kaliforníu búi nú við fátækt. Dregið hefur úr glæpatíðni í Bandaríkjunum á undanförnum árum og er nú óttast að hún kunni að aukast á nýjan leik.

Lee Baca, lögreglustjóri í Los Angeles og formaður bandarískra lögreglusamtaka sem berjast gegn glæpum, fjallar um stöðuna vestanhafs á stjórnmálavefnum Politico.

Bendir Baca þar á að 15 milljónir bandarískra barna lifi nú undir fátæktarmörkum, samkvæmt nýjustu tölum bandarísku hagstofunnar.

Þar af séu um 2 milljónir barna í heimaríki hans Kaliforníu sem jafngildi því að fimmta hvert barn búi við fátækt.

Að sögn Baca hefur fátækum börnum því fjölgað um 10% í ríkinu á milli ára 2008 og 2009 en miðað við sögulegt atvinnuleysi vestanhafs verður að ætla að hlutfallið hafi aukist á milli ára 2009 og 2010.

Baca óttast að staða fátækra fjölskyldna eigi eftir að versna ef Bandaríkjaþing hætti ekki við að hækka tekjuþröskuld fyrir skattaafslátt til handa efnalitlum fjölskyldum um áramótin.

Þröskuldurinn miðast nú við tekjur umfram 3.000 bandaríkjadali og stendur til að hækka hann í 13.000 bandaríkjadali um áramótin. Endurgreiðslan miðast við 15% af tekjum foreldra og er að hámarki 1.000 bandaríkjadalir á hvert barn. Rennur afslátturinn umfram 3.000 dala tekjur út um áramót og breytist því eftir nokkrar vikur nema þingið framlengi réttinn.

Baca segir að verði þröskuldurinn hækkaður muni það leiða til þess að 18 milljónir bandarískra barna muni missa afsláttinn með tilheyrandi afleiðingum fyrir aðbúnað fjölskyldna þeirra.

Ein afleiðinganna kunni að verða sú að glæpatíðni hækki á ný vestanhafs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert