Mastercard lokar á Wikileaks

Kortafyrirtækið MasterCard hefur lokað fyrir viðskipti við uppljóstranavefinn Wikileaks, að því er fréttavefurinn CNET greinir frá. Vitnað er í talsmann fyrirtækisins sem staðfestir að eigendur korta frá MasterCard geti ekki lengur notað þau í viðskiptum við vefinn eða til að styðja hann með framlögum.

Áður hefur svissneskur banki lokað reikningi sem skráður var á Julian Assange, stofnanda Wikileaks, og fyrirtækið PayPal hefur gert slíkt hið sama. Í frétt CNET kemur fram að nú sé aðeins hægt að styrkja Wikileaks með kortum frá Visa, gegnum síðu sem vistuð er af íslenska fyrirtækinu DataCell.com, að því er segir í fréttinni. Var haft samband við talsmann Visa, sem vildi ekki tjá sig um málið.

Þá er haft eftir talsmanni MasterCard að ákvörðun um lokun á Wikileaks sé tilkomin vegna þess að ólögleg starfsemi fari fram á vefnum, það sé ekki samkvæmt starfsreglum fyrirtækisins að kort þess séu notuð við slíka iðju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert