Skipuleggja árásir í Sýrlandi

Barist hefur verið í Sýrlandi frá árinu 2011. Talið er …
Barist hefur verið í Sýrlandi frá árinu 2011. Talið er að um 800 Frakkar taki þátt í átökunum með einum eða öðrum hætti. AHMED DEEB

Tveir karlmenn og kona hafa verið handtekin í Suður-Frakklandi grunuð um að safna liði og fá fólk til að berjast í „heilögu stríði“ í Sýrlandi. Jafnframt eru þau grunuð um að hafa skipulagt „ofbeldisfullar árásir“ í landinu. 

Fólkið var handtekið í borginni Albi í áhlaupi rannsóknarlögreglu og sérsveitar snemma í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafði tvennt komið aftur til Frakklands í vor eftir að hafa verið í Sýrlandi í þrjá mánuði. 

Að sögn AFP hefur ríkisstjórn Frakklands haft miklar áhyggjur af róttækum múslímum í landinu. Um fimm milljónir Frakka eru múslímar og hafa mörg hundruð þeirra farið til Sýrlands til þess að berjast í „heilögu stríði“.

Jafnframt hefur verið tilkynnt nýtt lagafrumvarp sem styrkir núverandi lög gegn hryðjuverkum og vonast er til að þau geti fækkað þeim sem fara til Sýrlands. Lagafrumvarpið felur í sér að fólki sem grunað er um róttækni af einhverju tagi er bannað að ferðast og veitir frumvarpið jafnframt yfirvöldum leyfi til þess að gera vegabréf þess upptæk og ógild tímabundið. 

Talið er að um 800 franskir ríkisborgarar, þar af tugir kvenna, hafi farið til Sýrlands til að berjast eða ætli sér þangað. 

Yfirvöld í Frakklandi óttast að þeir sem fara til Sýrlands og snúi aftur til Frakklands geti kynt undir ofbeldi í landinu, en aðeins um tveir mánuðir eru síðan franskur maður af alsírskum ættum skaut fjóra til bana á safni í Brussel. Hann var nýkominn frá Sýrlandi er hann framdi ódæðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert