Einn og innilokaður í 23 tíma á dag

David Sweat.
David Sweat. AFP

David Sweat, annar strokufanganna sem sluppu úr fang­elsi í New York í síðasta mánuði, hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er kominn aftur á bak við lás og slá.

Eins og frægt er orðið sluppu menn­irn­ir á ótrú­leg­an hátt úr fang­els­inu og gengu laus­ir í um þrjár vik­ur. Sweat náðist lif­andi en félagi hans Rich­ard Matt var skot­inn til bana af lög­reglu.

Sweat hefur legið á sjúkrahúsi síðan hann var gripinn fyrir viku, en hann varð fyrir tveimur skotum. Hann hefur nú verið færður í Five Points-fangelsið í New York, sem er hundrað kílómetra frá Cl­int­on-fangelsinu þaðan sem þeir sluppu. 

Í yfirlýsingu frá lögreglu kemur fram að Sweat sé nú í skoðun á sjúkrahúsi fangelsisins áður en hann verði færður í fangaklefa þar sem hann verði einn og innilokaður í 23 klukkustundir á sólarhring. Þá er einnig sjálfsvígsvakt um Sweat, en klefinn er útbúinn þannig að hann mun lítið geta hreyft sig.

Þúsundir lög­reglu­manna tóku þátt í leit­inni að Sweat og Matt, sem voru þeir fyrstu til að sleppa úr fangelsinu í yfir 100 ár. Til þess að brjót­ast út úr fang­els­inu notuðu menn­irn­ir ýmis verk­færi og nú hef­ur komið í ljós að fang­els­is­starfs­menn­irn­ir Joyce Mitchell og Gene Pal­mer smygluðu verk­fær­um til fang­anna með ham­borg­ara­kjöti.

Matt og Sweat tókst að kom­ast í gegn­um vegg í klefa sín­um, sem er meðal ann­ars styrkt­ur með járni, og kom­ast inn í loftræ­stigöng. Þar þurftu þeir að brjóta niður vegg, saga í gegn­um þykka lögn, skríða eft­ir henni og saga enn eitt gatið í vegg. Loks komust þeir upp um ræsi fyr­ir utan veggi fang­els­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert