Kallaði árásirnar „villimannslegar og huglausar“

Frá vettvangi sprengjuárásar Boko Haram í Nígeríu í síðasta mánuði.
Frá vettvangi sprengjuárásar Boko Haram í Nígeríu í síðasta mánuði. AFP

Að minnsta kosti 14 létu lífið í þremur sjálfsmorðsárásum í norðaustur Nígeríu í dag. Talið er að hryðjuverkasamtökin Boko Haram beri ábyrgð á árásunum en þær þykja minna á fyrri árásir samtakanna.

Árásirnar voru allar í borginni Damaturu sem er höfuðborg Yobe ríkis. Aðeins eru nokkrir dagar síðan að samtökin lýstu yfir ábyrgð á þremur árásum nálægt Abuja. Þá létust átján manns.

Damaturu hefur oft orðið fyrir árásum Boko Haram. Í síðasta mánuði létust sex manns á rútustöð í borginni þegar ung stúlka sprengdi sig þar í loft upp. Hún er talin hafa verið aðeins tólf ára gömul.

Fyrsta árásin í dag varð í lítilli matvöruverslun og þar létust fjórir. Næsta árás var nálægt mosku og lést þar einn á meðan níu manns, þar á meðal heil fjölskylda, létu lífið þegar að maður sprengdi sig í loft upp við útjaðra borgarinnar.

Tíu særðust í árásunum, þar af þrír alvarlega.

Ríkisstjóri Yobe, Ibrahim Gaidam kallaði árásirnar „villimannslegar og huglausar“ og kallaði eftir því að eftirlit í borginni yrði aukið. Talsmaður lögreglu sagði að árásirnar hafi verið gerðar snemma í morgun eða á milli klukkan 5:30 og 6 að staðartíma.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur gefið hershöfðingjum sínum þrjá mánuði til þess að stöðva Boko Haram en að minnsta kosti 17.000 manns hafa látið lífið í árásum þeirra frá árinu 2009.

Rúmlega 1.260 hafa látið lífið síðan hann tók við embætti 29. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert