Fá aðeins tímabundið hæli

AFP

Ríkisstjórn Noregs ætlar að breyta reglum sem gilda um hælisleitendur í þá veru að einungis verði veitt hæli til fimm ára. Eftir það verði flóttamenn sendir aftur til heimalandsins ef ástandið hefur batnað þar.

„Ef stríðinu lýkur í Sýrlandi eða aðstæður batna í Írak þá verða þeir að vera búnir undir það að snúa aftur,“ segir Jøran Kallmyr, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, í samtali við norska ríkisútvarpið í gærkvöldi.

„Ef það verða umbætur í landinu þá þýðir það að þú þarft ekki lengur á vernd að halda í Noregi. Þú átt einfaldlega að fara aftur,“ segir Kallemyr.

Hann segir að ríkisstjórnin hafi sent frumvarpið til skoðunar hjá þingflokkunum og vonist til þess að það verði að lögum fyrir jól. Þetta muni einnig ná til fjölskyldufólks. Það er að fjölskyldur þurfi að fara eins og þær leggja sig úr landi.

Að sögn Kallemyr er ríkisstjórn Noregs skuldbundin til þess að fara að alþjóðlegum lögum. Hann segir að norska ríkið sé, ólíkt því sænska, hætt að greiða fyrir flug og annan kostnað þeirra fjölskyldumeðlima sem fá hæli á grundvelli þess að aðrir úr fjölskyldunni hafi þegar fengið þar hæli.

Kallemyr segir að með tímabundnu hæli fylgi Noregur í fótspor Þýskalands sem hafi tekið upp þá stefnu að veita flóttafólki frá Sýrlandi tímabundið hæli í þrjú ár.

Gert er ráð fyrir því að yfir 30 þúsund muni óska eftir hæli í Noregi í ár en yfir fimm þúsund sóttu um hæli í september og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði.

Viðtalið við Kallemyr

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert