Yfir 500 látnir í Aleppo

AFP

Yfir 500 hafa látist, þar af tæplega 90 almennir borgarar, síðan Rússar og stjórnarherinn hófu loftárásir á Aleppo hérað í Sýrlandi fyrir tíu dögum síðan.

Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum sem mannúðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights hafa tekið saman. Alls hafa 506 látist, þar af 23 börn, frá 1. febrúar.  

Meðal fallinna eru erlendir hermenn, svo sem íranskir hermenn og Hezollah liðar frá Líbanon sem berjast með her landsins undir forsæti forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Yfir 100 útlendir skæruliðar hafa fallið frá því í byrjun mánaðar í Aleppo og nágrenni.

Harðir bardagar geisuðu í dag í kringum Tamura norður af Aleppo borg og rússneski herinn hefur gert loftárásir á nálæg þorp í dag.

Stjórnarherinn hefur náð töluverðum landvinningum í Aleppo héraði í febrúar og hafa tugir þúsunda íbúa héraðsins flúið að landamærum Tyrklands. Sameinuðu þjóðirnar vara við því að 300 þúsund íbúar Aleppo gætu lokast af og þar með ekki njóta mannúðaraðstoðar ef stjórnarherinn lokar áfram svæðinu. 

Hungursneyð ríkir í sýrlenska bænum Madaya og eru birgðir sem bárust í síðasta mánuði á þrotum. Sameinuðu þjóðirnar eru harðlega gagnrýndar fyrir vanmat á aðstæðum og að gera sér ekki grein fyrir því hversu margir íbúar Sýrlands svelti og eigi ekki möguleika á að fá aðstoð vegna umsáturs um bæina sem þeir búa í.

Samkvæmt frétt Guardian eru yfir ein milljón Sýrlendinga búsettir í bæjum sem eru umkringdir og ekki möguleiki á að koma mataraðstoð til. 

S
S AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert