Bretar fá ekki aðgang að innri markaði ESB

Leiðtogar ESB segja Bretland ekki fá neina sérmeðferð. Annað hvort …
Leiðtogar ESB segja Bretland ekki fá neina sérmeðferð. Annað hvort verði þeir alveg með eða ekki. AFP

Bretar munu ekki hafa aðgang að innri markaði Evrópusambandsins eftir að þeir segja skilið við sambandið nema þeir samþykki skilyrði þess um frjálsa för fólks milli landa. Þetta segir Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, en leiðtogar ríkjanna hittust án David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fyrr í dag.

Sagði Tusk að það væri enginn innri markaður í boði fyrir Bretland þar sem þeir gætu pantað hvaða eiginleika þeir vildu og hverju þeir vildu sleppa. Sagði hann að leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hefðu sagt það kristalskírt að til að hafa aðgang að innri markaðinum þyrftu lönd að samþykkja öll fjögur frelsis atriðin, meðal annars frjálsa för fólks.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar og Donald Tusk forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, …
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar og Donald Tusk forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, á fundinum í dag. AFP

Í september munu leiðtogar ríkjanna 27 aftur halda fund og þar ræða úrsögn Bretlands úr sambandinu.

Tusk tók fram að formlegar viðræður við Bretland myndu ekki hefjast fyrr en Bretland hefur formlega virkjað 50. grein sambandsins sem kveður á um úrsögn. Cameron hefur sagt að það verði verkefni þess sem tekur við af honum í embætti forsætisráðherra. Stjórnendur Íhaldsflokksins í Bretlandi hafa sagt að leiðtogaskipti í flokknum verði gengin í gegn ekki seinna en 2. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert