Segja stríðsglæpi framda í Aleppo

Stjórnarherinn hefur hafið stórsókn gegn uppreisnarmönnum sem hafa haldið hluta …
Stjórnarherinn hefur hafið stórsókn gegn uppreisnarmönnum sem hafa haldið hluta Aleppo. AFP

Fastafulltrúi Frakka hjá Sameinuðu þjóðunum fullyrðir að stríðsglæpir eigi sér stað í sýrlensku borginni Aleppo. Öryggisráðið fundar nú um loftárásir stjórnarhersins á borgarhluta sem eru á valdi uppreisnarmanna. Sendiherra Frakka segir stríðsglæpina ekki mega líðast án refsinga.

„Það er verið að fremja stríðsglæpi hér í Aleppo. Þá má ekki láta hjá líða og refsileysi er ekki valkostur í Sýrlandi,“ segir Francois Delattre, fastafulltrúi Frakka hjá SÞ.

Ban Ki-moon, aðalritari SÞ, hefur sagt að honum blöskri hrollvekjandi loftárásir sem eigi sér stað í Aleppo. Hefur hann varað við því að beiting þungavopna þar gæti flokkast sem stríðsglæpur.

Frétt mbl.is: Öryggisráðið fundar um Aleppo

Breski fastafulltrúinn Matthew Rycroft tekur í sama streng. Sprengjurnar sem rigni yfir borgina fari ekki í manngreiningarálit og séu skýrt brot á alþjóðalögum.

„Þegar maður hélt að hlutirnir gætu ekki versnað í Sýrlandi gera þeir það,“ segir hann.

Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn fóru fram á fundinn í öryggisráðinu til þess að setja þrýsting á Rússa um að hafa hemil á bandamönnum sínum í Sýrlandi og stöðva loftárásirnar á Aleppo.

Fundur öryggisráðsins hófst kl. 15 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert