Enn dýpka sár stríðshrjáðs lands

Eyðilegging vígamanna á bænaturni í Mosúl dýpkar enn sár stríðshrjáðs lands, segir yfirmaður UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Irina Bokova. 

Hún hvetur ríki heims til þess að bregðast strax við og koma í veg fyrir frekari eyðileggingu í samfélagi sem þegar hefur gengið í gegnum skelfilegar hörmungar. 

Greint var frá því í morgun að vígasamtökin Ríki íslams hafi sprengt upp ævagamla mosku, al-Nuri, og bænaturn hennar í gær. Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, segir að þetta sé opinber yfirlýsing um að vígasamtökin, Ríki íslams, játi sig sigruð. 

Fyrir og eftir - al-Nuri moskan og bænaturn hennar al-Hadba.
Fyrir og eftir - al-Nuri moskan og bænaturn hennar al-Hadba. AFP

Samkvæmt upplýsingum frá Íraksher var það Ríki íslams sem eyddu byggingunum en vígasamtökin segja að þar hafi Bandaríkjaher verið að verki. Gervihnattamyndir sýna að moskan og bænaturninn hafa verið jöfnuð við jörðu.

Yfir 800 ára gömul

Moskan, sem var meira en 800 ára gömul, er mjög þekkt ekki síst fyrir að það var í henni sem leiðtogi Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, lýsti yfir kalífadæmi samtakanna. Þetta er í eina skipti sem hann hefur komið formlega fram, samkvæmt fréttum AFP og BBC.

Yfirherforingi Bandaríkjahers í Írak, Joseph Martin, segir þetta glæp gegn íbúum Mosúl sem og öllum íbúum Íraks. Þetta sé enn eitt dæmið um hvers vegna það þurfi að gereyða þessum hrottalegu vígasamtökum.

Að sögn yfirmanns herafla Íraks í Mosúl stóðu yfir bardagar rétt við moskuna þegar vígamenn f sprengdu upp moskuna sem og bænaturninn. Hingað til hafa borgarar í Mosúl geta komið í veg fyrir að moskan yrði fyrir árásum. 

Þúsundir hermanna, Írakar, Kúrdar og fleiri taka þátt í bardaganum um Mosúl sem hefur geisað frá 17. október. Ríkisstjórn Íraks lýsti yfir frelsun austurhluta Mosúl í janúar en vesturhluti borgarinnar er enn að hluta undir yfirráðum Ríkis íslams.

Skakki turninn í Mosúl - bænaturninn sem oft var kallaður …
Skakki turninn í Mosúl - bænaturninn sem oft var kallaður kroppinbakur er horfinn. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að líf á annað hundrað þúsund almennra borgara sé að veði en Ríki íslams heldur yfir 100 þúsund borgarbúum í gíslingu. 

Á sunnudag lýstu herforingjar því yfir að lokakaflinn í baráttunni um borgina væri hafinn þegar sótt var að gamla borgarhlutanum úr öllum áttum. Herinn heldur því fram að ekki séu nema um 300 almennir borgarar eftir í gamla borgarhlutanum.

„Kroppinbakur“

Al-Nuri var byggð árið 1172 og er þekktasta moska súnní-múslíma í Mosúl. Hún er nefnd eftir leiðtoga múslíma, Nur al-Din Mahmoud Zanki, sem var þekktur fyrir að hveta til víga á kristnum krossförum.

Bænaturninn, sem er byggður úr vandaðri múrhleðslu, var þekktur undir gælunafninu „al-Habda“ (sem þýðir kroppinbakur). Mánuði eftir að Ríki íslams náði Mosúl á sitt vald í júní 2014 stýrði Baghadi föstudagsbæn úr predikunarstól í moskunni og talaði um nýstofnað kalífadæmi. Ríki þar sem íslömsk lög væru í heiðri höfð (saria-lög) og starfaði í umboði Guðs á jörðu.

Gamli bærinn í Mosúl.
Gamli bærinn í Mosúl.

Vígasamtökin flögguðu svörtum fána sínum á bænaturninum og moskan varð miðpunktur starfsemi Ríkis íslams í Írak. Ýmsir velta fyrir sér hvers vegna vígasamtökin ákváðu að eyðileggja moskuna og turninn en Ríki íslams hefur sýnt sögulegum og menningarlegum verðmætum litla virðingu þau þrjú ár sem samtökin hafa herjað á Írak og Sýrland.

Leiðtogi Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, lýsir yfir kalífadæmi Ríkis …
Leiðtogi Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, lýsir yfir kalífadæmi Ríkis íslams í moskunni í Mosúl. AFP

En að jafna við jörðu moskuna þar sem kalífaríkinu formlega lýst þykir benda til að samtökin geri sér grein fyrir því að þau ráða ekki yfir Mosúl lengur. Kannski sé betra að eyða kennileitinu frekar en að horfa upp á stjórnarherinn ná völdum yfir því á ný. 

Mæðgur á flótta úr gamla bænum í Mosúl.
Mæðgur á flótta úr gamla bænum í Mosúl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert