FBI hleraði kosningastjóra Trump

Paul Manafort er nú sagður hafa verið undir eftirliti FBI …
Paul Manafort er nú sagður hafa verið undir eftirliti FBI allt frá 2014. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hleraði Paul Manafort, kosningastjóra Donald Trumps Bandaríkjaforseta, af því að menn höfðu áhyggjur af tengslum hans við ráðamenn í Rússlandi. Bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu í dag og segja heimild hafa verið fyrir eftirlitinu sem hafi átt sér stað bæði fyrir og eftir bandarísku forsetakosningarnar.

Segir BBC rannsakendur hafa viljað komast að því hvort að Manafort hefði leitað aðstoðar hjá Rússum vegna framboðs Trump. Ekki er hins vegar vitað hvort að upptökurnar, en þær elstu eru frá 2014, nái einnig til samræðna Manaforts og Trump.

Manafort hafði starfað fyrir stjórnarflokk Úkraínu sem pólitískur ráðgjafi áður en hann tók við hlutverki kosningastjóra Trump og gegndi því hlutverki frá því í júní 2016 þar til í ágúst sama ár. Hann hefur ekki tjáð sig um fréttir af hleruninni.

Robert Mueller hefur gegnt embætti sérstaks saksóknara í rannsókn FBI á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum. Rannsóknin á Manafort hófst þó fyrir þann tíma og var eftirlitið fyrst heimilað í tengslum við rannsókn á bandarísku ráðgjafarfyrirtæki sem starfar í Úkraínu að því er CNN greindi frá.

CNN hefur eftir þremur heimildamönnum að upplýsingar sem FBI hafi aflað sér með rannsókninni á Manafort hafi valdið áhyggjum af því að hann hafi óskað aðstoðar Rússa við kosningaherferð Trumps. Tveir heimildamannanna segja þó að ekki hafi tekist að sanna hvort svo hafi verið.

Áður hefur verið greint frá því að FBI, ásamt nokkrum nefndum Bandaríkjaþings, hafi gert húsleit hjá Manafort í lok júlí á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert