Vilja upplýsingar um alla einkapósta

Hvíta húsið í Washington D.C.
Hvíta húsið í Washington D.C. AFP

Bandarísk þingnefnd hefur óskað eftir upplýsingum frá Hvíta húsinu varðandi notkun einkanetfanga í opinberum erindagjörðum. Óskað var eftir þessu eftir að tengdasonur Donald Trump, Jared Kushner, viðurkenndi að hafa gert það. Fimm aðrir ráðgjafar forsetans hafa einnig orðið uppvísir að því að nota einkapósta sína í opinberum erindagjörðum. 

Kushner hefur verið beðinn um að varðveita alla tölvupósta sína, segir í frétt BBC. Eiginkona hans, Ivanka Trump, á einnig að hafa notað einkapóst sinn í svipuðum tilgangi.

Kushner segir að hann hafi sent innan við 100 tölvupósta með þessum hætti en aðrir sem nefndir eru í rétt New York Times eru Steve Bannon, Reince Priebus, Gary D. Cohn og Stephen Miller.

Newsweek-tímaritið hefur birt frétt um að Ivanka Trump hafi sent tölvupósta sem tengdust samvinnu við viðskiptasamtök.  Engar grunsemdir eru um að Kushner né nokkur hinna hafi deilt leynilegum upplýsingum á þennan hátt. Ekki er bannað með lögum að starfsmenn Hvíta hússins noti einkanetföng svo lengi sem þeir framsenda fagleg skilaboð á opinber netföng sín til varðveislu þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert