Rússar framleiddu eitrið Novichok

Af vettvangi í Salisbury.
Af vettvangi í Salisbury. AFP

Rússneskur vísindamaður hefur viðurkennt fyrir þarlendum fjölmiðlum að hafa unnið að framleiðslu taugaeitursins Novichok sem Bretar segja að notað hafi verið til að eitra fyrir fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal. Frásögn hans er þvert á yfirlýsingu aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands frá því í síðustu viku, þegar hann sagði Rússa aldrei hafa unnið með Novichok.

Leonid Rink sagði rússnesku fréttastofunni RIA Novosti að hann hefði unnið að verkefni á vegum ríkisins fram að fyrri hluta tíunda áratugarins. Hann bætti því við að Sergei-feðginin væru ekki á lífi hefði Moskva verið á bak við árásina.

Sú staðreynd að þau væru enn á lífi þýddi að ekki hafi verið um Novichok að ræða, eða þá að það hefði verið illa framleitt eða kæruleysislega notað. Annan möguleika sagði hann vera að þau hefðu strax fengið mótefni, sem þýddi þá að Bretar vissu nákvæmlega um hvaða eiturefni var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert