Gruna Svía um hádegisdrápið

Þessi maður er grunaður um að hafa stungið Heikki Bjørklund …
Þessi maður er grunaður um að hafa stungið Heikki Bjørklund Paltto til bana á heimili þess síðarnefnda í Majorstuen-hverfinu í Ósló í hádeginu síðastliðinn mánudag. Myndirnar eru úr öryggismyndavél á lestarstöðinni í Skøyen í Ósló. Hann er nú eftirlýstur um allan heim. Mynd/Lögreglan í Ósló

„Við getum staðfest að við höfum nú tvítugan mann sem er sænskur ríkisborgari grunaðan um rán og manndráp. Hann hefur ekki verið handtekinn.“

Þetta sagði Grete Lien Metlid rannsóknarlögreglukona á blaðamannafundi í Ósló í hádeginu í dag og er það norska ríkisútvarpið NRK sem hefur ummælin eftir.

Lögregla hefur lagt nótt við dag í rannsókn á hrottalegu manndrápi í Majorstuen-hverfinu í borginni í hádeginu síðastliðinn mánudag en í byrjun hafði hún ekkert í höndunum annað en lík í íbúð og vitni sem sagðist hafa séð náfölan mann koma alblóðugan út úr fjölbýlishúsi og tylla sér á blómaker en mbl.is greindi frá málinu á mánudaginn.

Bað um vatn á sænsku

Tvítugur sænskur ríkisborgari, sem lögregla vill enn ekki nafngreina, er nú grunaður um verknaðinn sem fyrr segir en talið er að hann hafi tekið lest til Svíþjóðar fljótlega eftir ódæðið og hefur lögregla birt myndir af hinum grunaða sem eftirlitsmyndavélar á lestarstöðinni í Skøyen í Ósló náðu af honum. Maðurinn er nú eftirlýstur um allan heim eins og NRK greindi frá fyrr í dag.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Ósló enda virðist fórnarlambið, hinn 24 ára gamli Heikki Bjørklund Paltto, fyrrverandi knattspyrnumaður og -þjálfari liðsins Mysen IF í Østfold-fylki, hafa verið valið af handahófi og hafði aldrei komið við sögu lögreglu. Félagar Paltto í knattspyrnuliðinu eru niðurbrotnir og hefur leik þeirra gegn liðinu NMBUI, sem fara átti fram á þriðjudagskvöld, nú verið frestað eins og TV2 og fleiri norskir fjölmiðlar hafa greint frá en liðsfélagarnir segja Paltto hafa verið hvers manns hugljúfa og sé hans sárt saknað.

Nokkrum klukkustundum áður en Paltto var ráðinn bani mun sá sem grunaður er hafa hringt dyrabjöllu íbúðar í hverfinu Gamlebyen, hinum megin í Ósló. Húsráðandi þar segir hann hafa verið ákaflega kurteisan en ráðvilltan eins og dagblaðið VG greinir frá. Maðurinn bað um vatnsglas og mælti á sænska tungu.

Sænska dagblaðið Aftonbladet fjallar einnig um málið og hefur eftir lögreglu í Svíþjóð að allt tiltækt lið leiti nú mannsins en hann mun einnig eiga sér afbrotaferil þar í landi og hefur hlotið þar dóm fyrir þjófnað og rán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert