Skaut þrjú til bana í Chicago

AFP

Rifrildi sem stigmagnaðist á bílastæði við sjúkrahús í bandarísku borginni Chicago endaði með því að þrír létust auk árásarmannsins.

Lögreglumaður og tvær konur sem unnu á Mercy-sjúkrahúsinu létust en ekki liggur fyrir hvort árásarmaðurinn tók eigið líf eða hvort hann lést af völdum skots frá lögreglu.

Árásarmaðurinn skaut fyrst sambýliskonu sína til bana eftir rifrildi þeirra á bílastæðinu. Síðan skaut hann að lögreglu þegar hún kom á vettvang og flúði inn í sjúkrahúsið.

AFP

Fleiri lögreglumenn komu á vettvang og skiptist lögregla á skotum við árásarmanninn sem skaut aðra konu til bana þegar hún kom út úr lyftu í anddyri sjúkrahússins. 

Borgarstjórinn í Chicago segir að konurnar sem létust hafi verið læknir og starfsmaður í lyfjabúri sjúkrahússins. Sjúklingar sem AFP-fréttastofan ræddi við segja að þeir hafi heyrt skothvelli fyrir utan sjúkrahúsið og séð mann sem hafi verið þar á gangi ásamt konu. Hann hafi skotið hana þremur skotum í brjóstið. Eftir að hún féll til jarðar hafi hann skotið hana í þrígang. 

Á sjónvarpsmyndum má sjá skelfingu lostna sjúklinga og starfsfólk hlaupandi út úr byggingunni út á bílastæðið á sama tíma og fjölmennt lögreglulið kom á vettvang.

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert