Undirbúa útgöngu án samnings

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, vinnur nú að því að undirbúa útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings. Óvissa ríkir hvort Brexit-samningurinn, sem ríkisstjórnin og Evrópusambandið hafa náð sátt um, verði samþykktur á breska þinginu í janúar.

BBC greinir frá því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar muni hittast í dag og ræða meðal annars hversu mikið fjármagn hvert ráðuneyti fái til að undirbúa útgöngu án samnings, verði það niðurstaðan. 101 dagur er til stefnu en til stendur að Bretland yfirgefi ESB 29. mars á næsta ári.

Þó svo að lítil samstaða ríki um Brexit-samninginn eru margir þingmenn einnig mótfallnir því að Bretland gangi úr ESB án samnings. 60 þingmenn hafa tekið sig saman og birt yfirlýsingu, stílaða á May, þar sem þeir segja að útganga án samnings muni leiða til skaðlegra efnahagslegra áhrifa sem annars væri hægt að koma í veg fyrir.

May stendur í ströngu líkt og hún hefur gert síðustu misseri, en í gær tilkynnti Jeremy Cor­byn, leiðtogi breska Verka­manna­flokks­ins, að hann hyggst leggja fram van­traust­stil­lögu gegn May.

Til­lag­an er einkum rök­studd með slæl­eg­um vinnu­brögðum við að und­ir­búa landið und­ir fyr­ir­hugaða út­göngu úr Evr­ópu­sam­band­inu. Tæp vika er síðan May varðist van­trausti úr röðum eig­in þing­manna. May gefur lítið fyrir vantraustið og segir um „kjánalegt pólitískt leikrit“ að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert