Íhuga ákæru á hendur Huawei

Huawei gæti brátt sætt ákæru í Bandaríkjunum fyrir hugverkastuld, samkvæmt …
Huawei gæti brátt sætt ákæru í Bandaríkjunum fyrir hugverkastuld, samkvæmt frétt Wall Street Journal. AFP

Bandarísk yfirvöld eru komin langt á leið með sakamálarannsókn, sem gæti endað með ákæru á hendur kínverska raftækjafyrirtækinu Huawei, samkvæmt frétt bandaríska blaðsins Wall Street Journal, sem birtist í dag.

Wall Street Journal hefur það eftir ónafngreindum heimildarmönnum sínum að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sé að skoða ásakanir á hendur Huawai sem varða þjófnað á hugverkum bandarískra fyrirtækja sem hafa unnið með kínverska raftækjarisanum. Huawei er meðal annars sakað um að hafa stolið tækninýjung frá fjarskiptafyrirtækinu T-Mobile, sem notuð er til þess að prófa snjallsíma.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafnaði því að tjá sig við Wall Street Journal og þegar fréttamenn AFP-fréttaveitunnar leituðu viðbragða hjá Huawei komu þeir sömuleiðis að tómum kofunum og fengu engin svör.

Í frétt AFP um þetta mál segir að ákæra á hendur Huawei af hálfu bandarískra yfirvalda myndi enn auka á spennuna sem er í sambandi Bandaríkjanna og Kína eftir að Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei og dóttir stofnanda fyrirtækisins, var handtekin í Kanada í desember.

Handtaka Meng Wanzhou hefur reitt kínversk stjórnvöld til reiði og síðan þá hafa 13 Kanadamenn verið handteknir í Kína að sögn stjórnvalda í Ottawa. Einn þeirra, Robert Lloyd Schellenberg, var dæmdur til dauða á mánudag fyrir fíkniefnainnflutning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert