Fastir saman þegar þeir létust

Hópurinn sem kemur að leitinni.
Hópurinn sem kemur að leitinni. AFP

Sjö fjallgöngumenn sem fórust á næst hæsta fjalli Indlands í Himalajafjöllunum voru tengdir saman í línu þegar snjóflóðið sem grandaði þeim féll.

Lík þeirra voru sótt í 6.500 metra hæð á sunnudag og þeim komið í öruggt skjól við rætur fjallsins Nanda Devi. Leit og björgun tók tæplega mánuð en snjóflóðið féll 27. maí og heyrðist ekkert frá hópnum eftir það. Alls voru átta fjallgöngumenn í hópnum sem var saknað og stendur enn yfir leit að þeim áttunda. Í hópnum voru fjórir Bretar, tveir Bandaríkjamenn, Ástrali og indverskur fararstjóri. 

Talsmaður björgunarleiðangursmannanna, Vivek Kumar Pandey, segir að þeir hafi allir verið festir saman þegar líkin fundust og væntanlega hefur sá sem ekki hefur enn fundist verið fremstur og leitt hópinn. Þess vegna var hann ekki fastur í línunni með hinum og væntanlega verið í einhverri fjarlægð frá hópnum. Hann er væntanlega undir þykku snjólagi og þrátt fyrir ítarlega leit undanfarna daga hefur hann ekki enn fundist. 

Talið er að hópurinn hafi verið að reyna að klífa tind Nanda Devi sem aldrei áður hefur tekist að klífa en nokkrir tindar eru á fjallinu. Indversk yfirvöld segja að leiðangurinn hafi ekki fengið heimild til þess að vera á þessu svæði heldur á austurhlið fjallsins. Ættingjar leiðangursmanna eru á öðru máli og segja hópinn hafa haft öll tilskilin leyfi.

Lík og búnaður sem sáust úr lofti í byrjun júní.
Lík og búnaður sem sáust úr lofti í byrjun júní. AFP

Lík þeirra sáust úr lofti fyrr í mánuðinum en erfiðlega hefur gengið að komast á staðinn vegna slæmra leitarskilyrða. Bæði hefur veðrið verið vont og eins svæðið erfitt yfirferðar. 

Upphaflega voru 12 í leiðangrinum en fjórum Bretum var bjargað eftir að þeir sneru til baka. Síðast heyrðist frá hópnum 26. maí, daginn áður en mikið snjóaði á þessu svæði með þeim afleiðingum að gríðarleg snjóflóð féllu í hlíðum fjallsins.

Líkin sjö voru flutt á svæði sem er töluvert neðar í dag og þar er hægt að lenda litlum þyrlum sem geta flutt þau að landamærastöð sem sem er í 3.657 metra hæð og auðveldara fyrir stærri herþyrlur að lenda þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert