Fékk orðu frá drottningu á meðan hún sveik út fé

Hús héraðsdóms í Kaupmannahöfn.
Hús héraðsdóms í Kaupmannahöfn. AFP

Margoft lá við að fjárdráttur Brittu Niel­sen, sem ákærð er fyr­ir að hafa dregið sér 117 millj­ón­ir danskra króna frá danska rík­inu, kæmist upp. „Það er tilviljun að það gerðist ekki,“ sagði Nielsen við réttarhöldin sem nú fara fram í Héraðsdómi Kaupmannahafnar.

Hún er ákærð fyr­ir stór­felld fjár­svik og skjalafals á tímabilinu 2002 - 2018 og hafði starfað hjá dönsku fé­lagsþjón­ust­unni í ára­tugi áður en upp komst um óút­skýrðar styrkja­greiðslur úr sjóðum fé­lagsþjón­ust­unn­ar í ág­úst í fyrra. Í kjöl­farið var gef­in út alþjóðleg hand­töku­skip­un á hend­ur Niel­sen sem þá var kom­in til Suður-Afr­íku, þar sem hún hafði keypt sér hús.

Dyggur opinber starfsmaður í 40 ár

Reyndar hafði Britta Nielsen starfað svo lengi hjá hinu opinbera að hún fékk orðu frá Margréti Þórhildi Danadrottningu árið 2016 fyrir að hafa unnið störf í þágu hins opinbera í 40 ár.

Gangi réttarhaldanna er lýst á vef danska ríkisútvarpsins, DR

Sveik fé út úr sjúklingasamtökum

Hún breytti númerum á reikningum þannig að sveitarfélög greiddu beint inn á reikninga hennar í stað reikninga félagsþjónustunnar þegar þau höfðu fengið ofgreitt. Þá sveik hún fé út úr samtökum sjúklinga með slímseigjusjúkdóm, Foreningen for Cystisk Fibrose, árið 2017. Það gerði hún eftir að talsmaður samtakanna hafði samband við félagsþjónustuna og spurði hvort stofnunin gæti geymt fé, sem samtökin höfðu fengið frá félagsþjónustunni til að halda námskeið, til næsta árs. Nielsen sagði að það væri ekki hægt, samtökin yrðu að greiða félagsþjónustunni til baka og gaf síðan upp eigið reikningsnúmer

Keypti sér flugmiða til Suður-Afríku þegar syrti í álinn

Það var svo í september í fyrra sem Britta Nielsen fékk tölvupóst frá einum af vinnufélögum sínum sem bað hana um aðstoð varðandi atvik sem síðar kom í ljós að tengdist fjárdrættinum. „Ég tilkynnti mig þá veika í einn og hálfan mánuð,“ sagði Nielsen. Næsta dag pantaði hún sér flugmiða til Suður-Afríku þangað sem hún fór skömmu síðar.

Saksóknari spurði Nielsen hvernig stæði á því að hún hefði gert hlé á fjárdrættinum um tíma. „Ég vildi ekki halda áfram. Ég var orðin háð þessu. Ég vildi gjarnan hætta, en ég varð að greiða reikninga. Ég var búin að kaupa hesta, bíla sem þurftu viðhald. Ég á fjölskyldu. Ég hafði skyldur,“ svaraði hún.

Framhald verður á réttarhöldunum, en hvenær það verður hefur ekki verið ákveðið samkvæmt frétt TV2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert