Tugir fjallgöngumanna fluttir á brott

Yfir 30 fjallgöngumenn hafa verið fluttir á brott frá rótum Everest vegna veikinda og óttast ferðamannaiðnaðurinn í Nepal að þetta geti gert út af við væntingar þeirra um líflegt vor. Ekki er vitað hvort þeir hafi allir fengið Covid.

Ferðamannaiðnaðurinn þar í landi varð fyrir miklu höggi í fyrra þegar lokað var fyrir komu fjallgöngumanna til landsins vegna kórónuveirufaraldursins. Í ár hafa yfirvöld aflétt sóttvarnahömlum að hluta í þeirri von að laða að erlenda fjallgöngumenn. Þetta hefur haft mikil áhrif og hafa þegar yfir 400 leyfi verið gefin út fyrir göngu á Everest og hafa þau aldrei verið jafn mörg.

Leyfið til að klífa Everest kostar eitt og sér 11 þúsund bandaríkjadali, sem svarar til tæplega 1,4 milljóna króna. Hver leiðangur á Everest greiðir allt að 40 þúsund dali fyrir leyfi til að reyna við hæsta fjall heims, Everest.

Nýjum smitum hefur aftur á móti fjölgað hratt í Nepal síðustu tvær vikur og einn þeirra sem hafa smitast er norski fjallgöngumaðurinn Erlend Ness. Hann lá veikur í tjaldi sínu í tvo sólarhringa í grunnbúðum Everest í síðasta mánuði og hafði ekki hugmynd um hvað amaði að honum. „Ég var fluttur til Katmandú og fór í skimun. Niðurstaðan var jákvæð,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Ness er viss um að fleiri fjallgöngumenn séu smitaðir og allir geri sér grein fyrir hættunni. Gina Marie Han-Lee er ein þeirra sem ákváðu að hætta við leiðangurinn á Everest vegna ótta um að Covid-19-smitum væri að fjölga í grunnbúðum. Hún flaug með þyrlu aftur til Katmandú eftir að hafa dvalið einn dag í grunnbúðum. Þetta hafi verið erfið ákvörðun en hún setji heilsuna í forgang. Covid og mikil lofthæð hljómi ekki vel saman og nokkuð sem hún vilji ekki upplifa. 

Stjórnendur heilsugæslu sem sinnir fjallgöngumönnum segja að flogið hafi verið með yfir 30 manns úr grunnbúðum Everest. Einhverjir þeirra hafi greinst með Covid í kjölfarið. Aftur á móti hafa yfirvöld ekki viljað staðfesta að Covid-smit hafi greinst á Everest. 

Yfirmaður ferðamála í Nepal, Rudra Singh Tamang, segir að kannski hafi einhverjir greinst með Covid í Katmandú en þar sem þeir hafi ekki verið skimaðir í búðunum sé ekki hægt að fullyrða hvar þeir smituðust. Læknar í búðunum benda aftur á móti á að það sé ekki möguleiki á að skima þar fyrir Covid. Óskað hafi verið eftir heimild til þess en þeirri beiðni hafi ekki enn verið svarað. 

Yfirleitt eru yfir eitt þúsund manns í tjaldbúðunum á þessum tíma en allt er mun rólegra þar núna þar sem leiðangurshóparnir voru beðnir að halda sig sér og forðast að komast í nánd við aðra. 

Yfir 400 hafa dáið úr Covid í Nepal síðustu tvær vikur og heilbrigðiskerfi landsins er nánast lamað vegna fjölda þeirra sem hafa veikst alvarlega.

Fjallgöngumenn á öðrum tindum í Nepal hafa einnig lent í vandræðum.Til að mynda er leiðangur á Dhaulagiri, sem er sjöunda hæsta fjall heims, í erfiðri stöðu eftir að þrír hið minnsta úr hópnum greindust með Covid í vikunni. Níu hafa verið fluttir á brott og verið er að skima aðra. 

Öndunarerfiðleikar eru algengir meðal fjallgöngufólks í mikilli hæð og kórónuveirusmit getur sett heilu leiðangrana í alvarlega lífshættu. Ekki er auðvelt að sækja veikt fólk þegar það er á afskekktum slóðum og jafnvel í mikilli hæð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert