17 Everest-farar með Covid-19

Flogið yfir Khumbu-jökul á Everest 2. maí 2021.
Flogið yfir Khumbu-jökul á Everest 2. maí 2021. AFP

Óttast er að Covid-19-bylgja geti brotist út við Everest en stjórn grunnbúa þessa hæsta fjalls heims hefur fengið upplýsingar um að 17 fjallgöngumenn hafi greinst með staðfest smit.

Um er að ræða upplýsingar frá sjúkrahúsi í Katmandú en fjallgöngumenn sem voru í grunnbúðum og efri búðum Everest hafa verið sendir þangað vegna veikinda. Stjórnendur búðanna segja að eðlilega fái flestir kvef sem leggja á fjallið en þegar veikindin eru alvarlegri er fólk beðið um að vera í einangrun eða leita læknisaðstoðar í Katmandú. 

Frá grunnbúðum Everest á laugardaginn, 1. maí.
Frá grunnbúðum Everest á laugardaginn, 1. maí. AFP

Starfsfólk einkasjúkrahúss í Katmandú, CIWEC, hefur staðfest við fréttamenn BBC að þangað leiti sífellt fleiri fjallgöngumenn með Covid-19 einkenni. Jafnframt að þar sé staðfestum smitum að fjölga meðal þeirra sem hafa verið í grunnbúðum Everest. 

Ríkisstjórn Nepal hefur hingað til neitað því að hafa vitnesku um að fólk sem hafi verið í grunnbúðum Everest hafi greinst með Covid við skimun. Segir í frétt BBC að það veki spurningar um hvort stjórnvöld vilji gera lítið úr stöðunni til þess að þau neyðist ekki til að loka fyrir aðgengi að fjallinu. Erlendir fjallgöngumenn eru helsta tekjulind ríkissjóðs en í fyrra varð að banna ferðir á Everest vegna kórónuveirufaraldursins.

Grunnbúðir Everest 1. maí 2021.
Grunnbúðir Everest 1. maí 2021. AFP

Yfirvöld mæla með því að fjallgöngumenn sem ætla sér á Everest fari í sóttkví áður en haldið er í grunnbúðir. Nýjum smitum hefur fjölgað hratt í Nepal undanfarnar vikur líkt og í nágrannaríkinu Indlandi. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert