Óánægðir Palestínumenn segja að umbætur Arafats gangi of skammt

Moussa Arafat, nýskipaður yfirmaður öryggismála á Gasasvæðinu, kemur til skrifstofu …
Moussa Arafat, nýskipaður yfirmaður öryggismála á Gasasvæðinu, kemur til skrifstofu sinnar umkringdur lífvörðum. AP

Herskáir Palestínumenn kveiktu í skrifstofum heimastjórnar Palestínumanna á Gasasvæðinu í dag en reiði ríkir á heimastjórnarsvæðunum vegna þeirra breytinga sem Yasser Arafat, forseti heimastjórnarinnar, gerði í gær á skipulagi öryggissveita Palestínumanna. Telja margir að með breytingunum hafi ekki verið gengið nægilega langt til að berjast gegn spillingu, sem grafið hafi um sig innan öryggissveitanna og heimastjórnarinnar og er það sérstaklega gagnrýnt að Arafat skipaði frænda sinn yfirmann öryggismála á heimastjórnarsvæðunum.

Arafat hitti Ahmed Qureia, forsætisráðherra heimastjórnarinnar, í Ramallah í morgun. Qureia vildi segja af sér í gær vegna þess ófremdarástands sem skapast hefði á Gasasvæðinu en Arafat hefur neitað að taka við afsögninni.

„Ég hafna alfarið afsögn þinni og tel hana ekki hafa verið lagða fram," sagði Arafat við Qureia í morgun, að sögn Saebs Erekats, ráðherra í heimastjórninni. Qureia sagði ríkisstjórn sinni í gær að hann væri staðráðinn í að hætta.

Tugir herskárra Palestínumanna, sem tengjast Fatah-samtökum Arafats réðust inn í skrifstofubyggingu í Gasaborg í nótt til að mótmæla því að Arafat skyldi skipa frænda sinn, Moussa Arafat, yfirmann öryggismála á svæðinu, en margir félagar í Fatah segja, að Moussa Arafat sé tákn þeirrar spillingar sem þrífist innan heimastjórnarinnar. Einn öryggisvörður særðist þegar kom til skotbardaga en árásarmennirnir náðu byggingunni á sitt vald, stálu vopnum og kveiktu í tveimur skrifstofum og bílum sem stóðu utan við húsið.

Moussa tók formlega við stjórn öryggissveitanna í morgun og sagðist reiðubúinn að berjast við alla hugsanlega óvini. Hann sagðist ekkert mark taka á mótmælunum. „Ég tek við skipunum frá Arafat forseta. Hann skipaði mig og aðeins hann getur beðið mig að hætta störfum," sagði hann.

Moussa Arafat, sem áður var yfirmaður leyniþjónustu Palestínumanna, var einn af stofnendum Fatah árið 1965 ásamt frænda sínum.

Óánægja með aðgerðir Arafats er víða á heimastjórnarsvæðunum þótt aðeins hafi soðið uppúr á Gasasvæðinu.

„Arafat er nú á krossgötum. Annaðhvort byltir hann skipulagi stjórnarinnar eða palestínska þjóðin mun hefja byltingu gegn honum," sagði Ahmed Jamous, námsmaður í Bir Zeit háskólanum í Ramallah. „Fólkið vill kosningar og góða ríkisstjórn en ekki að hópur spilltra þjófa stjórni sér."

Qureia skýrði Arafat í morgun frá umræðum á ríkisstjórnarfundi í gær þar sem ráðherrar deildu hart um ákvarðanir Arafats. Þá kröfðust þeir þess að Qureia og stjórn hans fái aukin völd. Qureia, sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra í tæpt ár hefur ekki getað komið fram umbótum innan heimastjórnarinnar vegna þess að Arafat hefur varist öllum tilraunum til að færa völd í hendur Qureias.

Í Ísrael hófust í morgun formlegar viðræður þeirra Ariels Sharons, forsætisráðherra, og Shimons Perez, leiðtoga Verkamannaflokksins, um myndun þjóðstjórnar sem á að hafa það hlutverk að framfylgja áætlun um brotthvarf Ísraelsmanna frá Gasasvæðinu.

Ahmed Qureia kemur til skrifstofu sinnar eftir fund með Arafat …
Ahmed Qureia kemur til skrifstofu sinnar eftir fund með Arafat í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert