Íransstjórn setur viðskiptabann á Danmörku

Mótmælendur við sendiráð Austurríkis í Tehran í Íran í dag.
Mótmælendur við sendiráð Austurríkis í Tehran í Íran í dag. Reuters

Viðskiptaráðherra Írans tilkynnti í dag, að öllum viðskiptum landsins við Danmörku væri lokið vegna birtinga á skopmyndum af Múhameð spámanni. „Frá og með morgundeginum verður ekki hægt að sækja um innflutningsleyfi á dönskum vörum,“ sagði ráðherrann, Masoud Mir-Kazemi.

„Hvers konar viðskiptasamningum eða -sáttmálum hefur hér með verið rift. Öll þau samkomulög sem hægt er að hætta við verður hætt við,“ sagði ráðherrann. Viðskiptanefndir yrðu ekki sendar til Danmerkur og viðskiptanefndir frá Danmörku væru ekki velkomnar. Skip skráð í Danmörku yrðu látin greiða „mjög há“ gjöld legðu þau að írönskum höfnum.

Að sögn ráðherrans nema viðskipti landanna um 280 milljónum dollara, 17,7 milljörðum króna. Íranar töpuðu þó litlu á því að hætta viðskiptum við Danmörku, tapið væri einkum Dana. Undanþágu frá viðskiptabanni fá þeir sem kaupa danskar læknavörur og fá þriggja mánaða frest til þess að finna sér annan birgi.

Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, gaf út þá tilskipun í fyrradag að öllum samningum skyldi rift við heimalönd þeirra dagblaða sem birt hafa skopmyndirnar og skipaði sérstaka ráðherranefnd til að fylgja hefndaraðgerðunum eftir. Viðskiptabannið kemur frá þessari nefnd.

Mótmælandi við sendiráð Austurríkis í Tehran, höfuðborg Írans, heldur á …
Mótmælandi við sendiráð Austurríkis í Tehran, höfuðborg Írans, heldur á lofti opnum Kórani. Mótmælendur grýttu bensínsprengjum og steinum í sendiráðsins. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert