Bin Laden segir Bandaríkjamenn í Írak engu betri en Saddam

Osama bin Laden sakar Bandaríkjamenn um villimennsku í Írak á …
Osama bin Laden sakar Bandaríkjamenn um villimennsku í Írak á hljópupptöku sem var nú birt í heild sinni á netinu í dag. Reuters

Osama bin Laden hefur sakað Bandaríkjaher um villumennsku í Írak og hefur líkt þeim við vonskuverk Saddams Hussein. Þetta kemur fram á hljóðupptöku sem var fyrst birt í janúar en var hún birt í heild sinni á netinu í dag.

„Glæpaverk (Bandaríkjanna) hafa hefur gengið svo langt að konum hefur verið nauðgað og þeim haldið í gíslingu fyrir framan eiginmenn þeirra [...] hvað varðar pyntingar á mönnum þá hafa þeir notað sýru og rafmangnsborvélar á liðamót þeirra,“ segir bin Laden á hljóðupptökunni sem er raddsett á ensku.

„Þrátt fyrir alla þessa villimennsku [...] þá styrkjast stríðsmenn Íslam og þeim fjölgar fyrir náð Allah,“ sagði hann.

Ekki er búið að staðfesta það hvort hljóðupptakan sé ófölsuð eða ekki. Það var fjölmiðlahópur al-Qaeda, al-Sahab, sem birti upptökuna á netinu.

Al-Jazeera fréttastöðin lék hluta af hljóðupptökunni í janúar sl. Þar kom fram að bin Laden hafi sagt að al-Kaída væri að undirbúa nýjar árásir í Bandaríkjunum.

Að sögn sérfræðinga hjá bandarísku leyniþjónustunni var um ósvikna upptöku að ræða frá bin Laden, en hún var sú fyrsta sem hann sendir frá sér síðan 2004.

Í hljóðupptökunni, sem var birt í heild sinni í dag, segir bin Laden að uppreisnarmenn í Írak væru að styrkjast þrátt fyrir að Bandaríkjaher og bandamenn þeirra beittu kúgun og villimennsku með þeim hætti að ekki væri lengur hægt að greina á milli ódæðisverka Saddams Husseins eða Bandaríkjamanna.

Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert