Kveikt var í bifreiðum og verslunum í París á meðan mótmæli stóðu yfir

Þúsundir ungmenna tóku þátt í mótmælagöngunni í miðborg Parísar í …
Þúsundir ungmenna tóku þátt í mótmælagöngunni í miðborg Parísar í dag. AP

Nokkrar bifreiðar og verslanir stóðu í ljósum logum í miðborg Parísar í dag eftir að til óeirða kom á meðan mótmælagöngu stóð, en verið var að mótmæla umdeildri vinnulöggjöf í landinu.

Eldurinn breiddist úr tveimur bifreiðum í nærliggjandi verslun sem er skammt frá utanríkisráðuneyti Frakklands.

Grímuklæddir menn brutu m.a. rúður bílaleigu í borginni á meðan óeirðirnar stóðu yfir.

Franska lögreglan reyndi að rýma svæðið, sem var fullt af mótmælendum, í því skyni að einangra óeirðarseggina.

Nokkur þúsund ungmenni tóku þátt í mótmælunum í dag, en sem fyrr segir var þeim beint gegn vinnulöggjöfinni umdeildu sem ætlað er að auka sveigjanleika á franska vinnumarkaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert