Ný hollensk skýrsla, sem unnin var fyrir ríkisstjórnina í Hollandi, hefur valdið ágreiningi, en í henni segir að íslamstrú brjóti ekki á mannréttindum eða stríði gegn gildum hollensks samfélags. Skýrsluna vann ráðgjafastofnun stjórnarinnar, WRR. Íslamstrú hefur verið ofarlega á baugi og mikið rædd í Hollandi allt frá því kvikmyndagerðarmaðurinn Theo van Gogh var myrtur af íslömskum öfgamanni árið 2004.
Holland þykir eitt frjálslyndasta og umburðarlyndasta land Evrópu, en múslimar og íslamstrú eru þó litin hornauga þar. WRR vann að gerð skýrslunnar í þrjú ár og var þar farið yfir skoðanir íbúa í 12 múslimaríkjum á lýðræði og mannréttindum. Af löndunum sem rannsóknin náði til má nefna Íran, Egyptaland og Indónesíu.
Jan Schoonenboom, einn þeirra sem hafði umsjón með gerð skýrslunnar, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að íslömsk samfélög séu kraftmikil og fjölbreytt. Þó svo þeir múslimar séu til sem aðhyllist öfgastefnu og íhaldssemi sé fjöldi hreyfinga sem þokist í átt að lýðræðislegri stjórnarháttum. Hollenski ráðherrann Ayaan Hirsi Ali, harður gagnrýnandi íslamstrúar, segir skýrsluna illa unna og gera lítið úr tjáningarfrelsi.
Schoonenboom segir skýrsluna þvert á móti hvetja til tjáningarfrelsis þar sem hún hafi hrint af stað alvarlegum umræðum um íslam og ögri stöðluðum ímyndum af múslimum. Það sé rangt að brotið sé gegn réttindum kvenna og mannréttindum í íslam og slíkar alhæfingar séu hættulegar.
Í skýrslunni er einnig fjallað um íslamskar stjórnmálahreyfingar eins og Hamas og segir Schoonenboom ákvörðun Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um að hætta fjárstuðningi við þau einungis opna möguleika Írans og Katar á því að fylla það skarð. Hollenska ríkisstjórnin hefur ekki enn tjáð sig um skýrsluna sem er 250 bls. löng.