Boeing ýtir nýrri langdrægri breiðþotu úr vör

Nýja þotan fyrir utan flugskýli í Everett.
Nýja þotan fyrir utan flugskýli í Everett. AP

Boeing-verksmiðjurnar hafa ýtt úr húsi í verksmiðjum sínum í Everett í Washingtonríki nýjustu framleiðslutegund sinni, þotu af gerðinni 777-300ER, sem ætlunin er að geta flogið lengur en nokkur önnur farþegaþota. Framundan eru flugtilraunir sem taka rúmt ár en miðað við er að fyrsta þotan verði afhent franska flugfélaginu Air France í apríl 2004.

Af hálfu Boeing er þess vænst að nýja þotan hjálpi til við að fleyta fyrirtækinu út úr verstu efnahagskreppu flugsögunnar og bæta stöðu þess í samkeppninni við evrópsku flugvélaverksmiðjurnar Airbus. Þegar hafa borist pantanir í 49 777-300ER-þotur frá sjö aðilum; þar á meðal flugfélögunum Air France, All Nippon Airways og Pakistan International Airlines, en auk þeirra hafa alþjóðleg fjárfestingafélög gert pantanir í þotuna.

Þotan hefur verið á þróunar- og framleiðslustigi í þrjú ár. Henni er ætlað að geta flogið allt að 13.400 kílómetra í einu eða 2.400 km lengra en önnur afbrigði sömu flugvélar, 777-300. Er vænghafið á langdrægu þotunni 3,9 metrum meira og vængirnir afturstæðir sem á að stytta flugtaksbrun og draga úr eldsneytisnotkun miðað við flogna vegalengd. Þá er hægt að fá þotuna með aukatönkum.

Mótorar nýju þotunnar eru tveir og engin smásmíði því hvor um sig eru umfangsmeiri en skrokkur á venjulegri þotu af gerðinni 737. Um er að ræða stærstu þotuhreyfla heims en þeir eru smíðaðir af General Electric.

Þotan er hönnuð til að keppa við A340-tegundir Airbus-verksmiðjanna en þær eru sem er langdrægustu breiðþotur heims, geta flogið meira en 13.800 km án viðkomu á leiðinni.

Fyrsta flug 777-300ER þotunnar er ráðgert í janúar eða febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK