Sýslumaður á Austur-Grænlandi skotinn til bana

Sýslumaðurinn í Tiniteqilaag á Austur-Grænlandi var skotinn til bana í fyrrakvöld. Morðinginn reyndi síðan að fremja sjálfsmorð, en lifði af, og var fluttur með flugvél á Landspítalann í Reykjavík. Hann hafði áður hótað að skjóta fyrrum eiginkonu sína og síðan búið um sig vopnaður riffli í verslun á staðnum. Sýslumaðurinn kom á staðinn til að fá manninn til að gefast upp, en féll að lokum fyrir hendi hans.

Maðurinn, sem er 38 ára gamall, var vopnaður riffli, og sagðist hafa skotið konu sína til bana og hótaði að kveikja í versluninni. Í ljós kom þó að konan var á lífi, en hann hafði hótað henni lífláti.

Lögregla fékk sýslumannninn í Tiniteqilaag og nokkra aðra til að reyna að tala manninn til, en það fór ekki betur en svo að hann skaut sýslumanninn til bana.

Að lokum greip lögregla til þess ráðs að skjóta táragasi inn í verslunina til að yfirbuga manninn. Hann skaut sig þá í höfuðið með rifflinum, en lifði af, og var fluttur með flugvél á Landspítalann þar sem liggur nú á gjörgæsludeild.

Maðurinn hafði staðið í skilnaði nýlega og átti í miklum persónulegum erfiðleikum.

Tiniteqilaag er hluti af sveitarfélaginu Ammassalik og liggur innarlega í Sermilik-firði. Þar búa um 160 manns.

Frá þessu segir á fréttavef grænlenska útvarpsins, Kalaallit Nunaata Radioa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert