Slysum á börnum fækkaði meðan á kennaraverkfalli stóð

Meðan á verkfalli grunnskólakennara stóð bárust Slysaskrá Íslands upplýsingar um 682 slys á börnum á aldrinum 5-15 ára, samanborið við 848 slys á sama tímabili árið á undan. Skráningum á skólaslysum fækkaði um tæp 80% milli ára, en fjöldi slysa í öðrum flokkum stóð nokkurn veginn í stað.

Landlæknisembættið hefur tekið saman upplýsingar um slys á börnum, 5-15 ára, meðan á kennaraverkfalli stóð nú í haust. Byggt er á upplýsingum úr Slysaskrá Íslands sem samanstendur af gögnum frá slysadeild LSH, Tryggingamiðstöðinni, lögreglunni og Vinnueftirlitinu.

Skoðuð voru slys á ríflega 8 vikna tímabili, frá 20. september til 16. nóvember 2004 og þau borin saman við slys sama tímabil árið á undan. Það ber að taka fram að kennt var í fjóra daga á ofangreindu tímabili, 2.-5. nóvember 2004, eftir að miðlunartillaga kom fram og áður en hún var felld í atkvæðagreiðslu kennara.

Fram kemur á heimasíðu landlæknis, að þegar litið sé á dreifingu slysa eftir tíma sólarhrings meðan á verkfalli stóð, samanborið við árið í fyrra, sjáist berlega að í ár áttu slysin sér stað mun síðar á deginum. Hápunktinum var náð um kvöldmatarleytið, milli klukkan 19 og 20 en flest slys í fyrra urðu milli klukkan 15 og 16 síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert