Íbúum í Hnífsdal leyft að vitja eigna sinna

Gamla húsið á Hrauni er ónýtt eftir snjóflóðið en það …
Gamla húsið á Hrauni er ónýtt eftir snjóflóðið en það nýja slapp að mestu. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Almannavarnayfirvöld í Ísafjarðarbæ hafa nú heimilað íbúum Árvalla og Hrauns í Hnífsdal að huga að húseignum sínum en snjóflóð féll þar í morgun og er nú ljóst að töluverðar skemmdir hafa orðið. Snjóflóðið er talið hafa verið um tæplega 600 metra breitt og það hreif með sér gamla bæinn í Hrauni í Hnífsdal og spennistöð við Árvelli. Við það fór rafmagn af svæðinu í kring. Einnig fór flóðið meðfram raðhúsum og blokkum við Árvelli og alveg niður á sléttlendi og komst snjór inn í raðhúsin og gluggar brotnuðu.

Gamli bærinn á Hrauni var byggður árið 1937 en ekki var búið í honum. Það hús er ónýtt. Einnig komst snjór í íbúðarhúsið í Hrauni sem byggt var 1978. Þar hafa orðið nokkrar skemmdir en eldhúsið fylltist af snjó. Útihús á bænum sluppu við flóðið en talið er að tæki sem voru á hlaðinu hafi skemmst.

Önundur Jónsson yfirlögregluþjónn segir að þar sem veður hafi skánað hafi verið tekin ákvörðun um að leyfa íbúum á umræddu svæði í Hnífsdal að vitja eigna sinna. Umrædd svæði eru hinsvegar lokuð almennri umferð. Íbúar svæðisins eru beðnir um að hafa samband við lögreglu áður en þeir halda til húsa sinna.

Helstu akstursleiðir innanbæjar á Ísafirði eru nú færar að sögn Þorbjörns Jóhannessonar bæjarverkstjóra. Flestar götur í Hnífsdal hafa nú þegar verið mokaðar. Í Holtahverfi hefur leið strætisvagna verið rudd og unnið er að mokstri á Eyrinni.

Þorbjörn segir að lítil ofankoma hafi verið í nótt og því sé ófærð ekki mjög mikil. Hann segir þó að ennþá sé spáð töluverðri ofankomu og því geti ástandið versnað fljótt.

Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er ónýtt eftir að snjóflóðið lenti …
Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er ónýtt eftir að snjóflóðið lenti á því. mbl.is/Halldór
Snjóflóðið hreif með sér gamla bæinn á Hrauni en hlífði …
Snjóflóðið hreif með sér gamla bæinn á Hrauni en hlífði nýja bænum. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
Flóðið náði að fjölbýlishúsum við Árvelli.
Flóðið náði að fjölbýlishúsum við Árvelli. mbl.is/Halldór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert