Dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir líkamsárásir

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir, sem hann framdi í september árið 2004. Maðurinn sló annan mann hnefahögg í andlitið svo að hann féll og höfuð hans skall í gangstéttina, með þeim afleiðingum að hann hlaut heilablæðingu. Þá sló hann annan mann með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði.

Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa verið á vettvangi á umræddum tíma. Hins vegar lá fyrir staðfesting á notkun greiðslukorts mannsins nálægt vettvangi um einum og hálfum tíma áður en árásin átti sér stað, ásamt því að vitni voru að árásinni. Taldi dómurinn, að lögfull sönnun hefði komið fram fyrir því að maðurinn hefði veitt hinum mönnunum þá áverka sem hann var ákærður fyrir og honum hafi ekki tekist að leiða fram sönnun um að verið sé að bera ranglega á hann sakir. Segir dómurinn, að árásin á annan manninn hafi verið sérlega hættuleg en hann hlaut lífsógnandi áverka, sem hefðu hæglega getað leitt hann til dauða. Brot hans séu alvarleg og framferði einkar ófyrirleitið.

Mennirnir, sem urðu fyrir árásunum, kröfðust bóta og segir héraðsdómur, að þeir eigi báðir rétt á miskabótum en þar sem ekki lágu fyrir vottorð um heilsu þeirra á tilteknum tímapunkti eru kröfurnar taldar vanreifaðar og þeim vísað frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert