Íslendingar komnir í bílalest frá Líbanon

Guðmundur Karl Guðmundsson, Markús Sigurjónsson og Már Þórarinsson við Le …
Guðmundur Karl Guðmundsson, Markús Sigurjónsson og Már Þórarinsson við Le Meridien-hótelið í Beirút í aðeins 3-5 km fjarlægð frá þeim svæðum þar sem sprengjur Ísraela hafa fallið. Reuters

Íslendingarnir sex, sem beðið hafa þess að geta yfirgefið Líbanon eru að leggja af stað í finnskri rútu sem er í bílalest með Þjóðverjum á leið til Damaskus í Sýrlandi. Már Þórarinsson, flugvirki, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins fyrir skömmu að rútan væri ekki lögð af stað en þess væri skammt að bíða.

Gert er ráð fyrir að flugvél á vegum íslenska utanríkisráðuneytisins komi til Damaskus frá Englandi í dag að til að sækja Íslendingana og fleiri norræna ríkisborgara sem þar eru.

Erlendir ríkisborgarar flýja nú Líbanon í stórum hópum. Að sögn fréttastofunnar AFP er samvinna milli Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Ísraels um brottflutning útlendinga en Ísraelsmenn hafa gert loftárásir á Líbanon undanfarna viku og takmarkað ferðir frá landinu í lofti og á sjó.

„Við erum að reyna að skipuleggja brottflutninginn," hafði AFP eftir ísraelskum embættismanni.

Um 170 manns hafa látið lífið í loftárásum Ísraelsmanna á Líbanon síðustu daga, þar á meðal sjö manna kanadísk fjölskylda af líbönskum ættum, sem dvaldi í húsi í þorpi í suðurhluta Líbanons við landamæri Ísraels. Ísraelsmenn gerðu loftárás á þorpið í gær, þar á meðal húsið þar sem fjölskyldan hafðist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert